135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:12]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum örugglega sammála um að áfram muni koma 98° heitt vatn og sennilega 180 sekúndulítrar upp úr Deildartunguhver þótt ríkið eigi ekki 20% í honum. Ég hygg að jafn vel gefinn maður og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson viti að tillagan er náttúrlega til komin vegna þess að við höfum séð uppákomur og deilur sem orðið hafa eftir að ríkið seldi eignarhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Það varð svo til þess að menn fóru að leita hófanna í viðskiptum við Orkuveitu Reykajvíkur og REI og svo framvegis. Ég hygg að hv. þingmanni sé ekki alveg sama um að meiri hlutinn í Reykjavík hafi fallið út af heitu vatni eða eignarréttindum þar.

Það sýnir okkur auðvitað að þessi mál eru ákaflega viðkvæm. Hér er rætt um auðlindir þjóðarinnar og þær eru auðvitað margar og margs konar en þjóðin hefur núorðið talsverðan vara á sér varðandi auðlindir sínar. Við sjáum hvernig tilfærslan á auðlindum í sjó hefur verið og hún hefur haft mikil áhrif á atvinnu og búsetuhætti án þess að við gætum séð það fyrir nákvæmlega í þeim lögum og reglum sem um það gilda. Ég held að nú vilji þjóðin stíga mjög varlega til jarðar og tel að rétt sé að staldra við.