135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þannig með lagaheimildir að meðan þær eru til staðar þá er hægt að nota þær. Og einmitt í ljósi þeirra orða sem hv. þingmaður viðhafði, þá held ég að það sé rétt að afnema þessa heimild. Það er auðvitað alltaf meiri hluti Alþingis sem getur sett inn slíkar heimildir á nýjan leik en ég held að það sé ágætt að svona heimild sé ekki inni meðan menn eru að ná lendingu í þessum málum. Væntanlega mun hæstv. iðnaðarráðherra koma með frumvörp hér inn í þingið sem m.a. fjalla um orkumálin og orkunýtinguna og eignarrétt okkar á auðlindum þjóðarinnar og hvernig með skuli farið og hvernig eigi að tryggja rétt almennings, eins og hv. þingmaður réttilega kom hér að.

En á meðan þau mál eru í slíkri óvissu sem nú er þá held ég að það sé rétt að afnema þetta heimildarákvæði. Það verður þá ekki nýtt ef það er ekki til staðar. Ef menn komast síðar að þeirri niðurstöðu að rétt sé að selja einhverja hluti þá ræður auðvitað meiri hlutinn á Alþingi því á hverjum tíma hvenær hann vill setja slíkar heimildir inn í fjárlög eða semja um slíka sölu að því gefnu að lagabókstafur sé á bak við það.