135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:18]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir annarra nefndarmanna sem hafa talað í umræðunni í dag, til nefndarmanna í fjárlaganefndinni. Ég get tekið undir þá skoðun að samstarfið í nefndinni hefur verið ágætt og umræður þar hafa verið málefnalegar og ástæða til þess að þakka formanni og varaformanni nefndarinnar sérstaklega fyrir þeirra ágæta framlag.

Ég hef ekki breytt um skoðun hvað það varðar að ég hef gríðarlegar áhyggjur af því hversu illa okkur gengur að spá fyrir um þróun efnahagsmála, hversu illa okkur gengur að spá fyrir um hverjar tekjur ríkissjóðs verða. Það er alvarlegt mál vegna þess að þegar við lítum á hagstjórnina þá eru þetta tveir meginþættir, annars vegar peningamálastefnan, þar er Seðlabankinn í lykilhlutverki og hins vegar eru það ríkisfjármálin og þar er það fjármálaráðuneytið og þingið og samspil þessara tveggja aðila og ríkisstjórnar raunverulega, sem skipta mestu máli.

Ef áætlanagerð er öll þannig að það er erfitt að sjá fyrir hvert svigrúm ríkissjóðs er, ef það gengur svona illa að spá fyrir um hver hagvöxturinn verður, þá erum við í stórkostlegum vandamálum. Vandinn felst auðvitað m.a. í því að spáin fyrir hagvöxt á þessu ári var sú að hagvöxtur yrði innan við 1%, 0,7% sem er mjög lítill hagvöxtur þegar horft er til þróunar síðustu ára. Við þær aðstæður væri ekkert óeðlilegt hjá ríkisvaldinu að líta svo á að það væri eðlilegt að spýta aðeins í þegar kemur að ríkisútgjöldum til þess að ýta undir með hagkerfinu, þó að auðvitað deili nú hagfræðingar um það hversu skynsamlegt slíkt er, en það væri ekki óeðlileg skoðun af hálfu ríkisvaldsins. Síðan gætu menn lent í því, staðið frammi fyrir því þegar líða tekur á árið að spár manna um þennan hagvöxt, í þessu tilviki 0,7%, reynist rangar og hagvöxturinn verði miklu meiri en ætlað var.

Það eru ýmis merki um það í íslenska efnahagslífinu núna að hagvöxturinn verði vel yfir 0,7%. Þó ekki væri nema það sem nefnt hefur verið í opinberri umræðu, sú staðreynd að fjölgun ársverka á fyrsta ársfjórðungi var meiri en 6%. Fjölgun ársverka á öðrum ársfjórðungi var yfir 4%, nokkuð yfir 2% á þriðja ársfjórðungi. Og hafi nú ekki framleiðnin í atvinnulífinu alveg hrunið, svona rétt á meðan, þá stefnir allt í það að hagvöxturinn verði kannski einhvers staðar 3–4%. Og þar með verða þær forsendur sem menn leggja upp og sú áætlanagerð sem lagt er upp með í ríkisfjármálum þegar kemur að hagstjórninni, allt önnur.

Menn standa frammi fyrir þessum vandamálum. Það er ekki bara á þessu ári sem mér sýnist þetta ætla að vera svona. Við vitum að þetta var svona á síðasta ári og við sjáum það í þeim gríðarlega tekjuauka sem ríkið stendur frammi fyrir. Ef ég man rétt þá var þetta á árinu þar áður líka. Við vorum reyndar að finna það út núna fyrir skömmu hver hagvöxturinn var árið 2001. Þannig að mönnum gengur meira að segja hægt að spá aftur á bak í tímann og hvað þá um framtíðina.

Ég vil halda þessu til haga því þetta er eitt af þeim stóru vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í allri vinnu í kringum fjárlögin af því að hér hefur töluvert verið rætt um breytt verklag í gerð fjárlaga og þetta er einn af þeim þáttum sem við verðum að velta vel fyrir okkur. Við þurfum að skoða það hvort við þurfum að efla enn frekar spágerðina og alla efnahagsvinnuna innan fjármálaráðuneytisins. Það kann að vera að við þurfum að leggja meiri fjármuni í það til að tryggja að við fáum gögn þaðan og spár sem við getum byggt á.

Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á störf þess ágæta fólks sem þar vinnur. Ég geri mér nefnilega fullkomlega grein fyrir því hversu flókið vandamálið er og hversu mjög þetta hefur breyst á undanförnum árum og breyst mjög hratt. Þetta hefur breyst mjög hratt vegna þess að efnahagslíf okkar hefur breyst svo algjörlega að margar af þeim ágætu þumalputtareglum sem menn höfðu um íslenskt efnahagslíf, eins og t.d. samspil gengis og verðbólgu, sem margir kunnu upp á sína tíu fingur, hefur bara breyst. Það er öðruvísi en áður var og líkönin sem lýsa efnahagslífinu hafa líka verið að breytast og þurfa að breytast.

Ég hef líka af því verulegar áhyggjur að sá afgangur sem hefur verið að myndast á fjárlögum á undanförnum árum valdi því að hæstv. ráðherrarnir sæki fastar og fastar á það að auka útgjöld til sinna málaflokka. Það er ósköp mannlegt og eðlilegt og allt eru þetta ágætisverk. En vandinn er sá að ef maður safnar saman nógu mörgum ágætum verkum þá getur það orðið að þjóðarböli vegna þess að kostnaðurinn við þetta hefur verið að aukast með hverju einasta árinu sem líður og það er alveg eðlilegt að við höfum af því áhyggjur.

Á sama tíma stöndum við frammi fyrir þeim vanda að hluti af hagkerfinu okkar, hluti af landinu hefur upplifað neikvæðan hagvöxt og ríkisstjórnin og Alþingi saman hafa verið að reyna að spýta í inn á þau svæði, reyna að hjálpa til þar, á sama tíma og við höfum verið að horfa á töluvert mikinn vöxt á öðrum svæðum á landinu, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu eða austur á fjörðum. Þetta eykur á hagstjórnarvandann. En ég tel að við eigum að skoða það mjög alvarlega að taka þá fjármuni sem nú eru t.d. inni hjá Seðlabanka og eru í eigu ríkisins, að taka þá fjármuni frá og greiða þá inn í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Létta þá álögurnar á komandi kynslóðir, tryggja að til séu peningar til að standa undir greiðslum til eldri borgara þegar að því kemur og minnka um leið áganginn á hæstv. fjármálaráðherra, því ég tel að hann þurfi vörn í þessu, að hann þurfi aðstoð til þess að koma í veg fyrir að útgjaldastigið haldi áfram að hækka og hækka og hækka. Það er áhyggjuefni.

Í þriðja lagi vil ég nefna hér að ég get tekið undir þær áhyggjur sem hafa komið fram hjá ýmsum hv. þingmönnum sem hér hafa talað varðandi þau skilaboð sem við erum að senda þegar við greiðum upp þennan halla eins og við höfum verið að gera hjá ýmsum ríkisstofnunum. Það sem ég tel að sé alveg lykilatriði, og það má ekki bregðast, að þegar fram verður haldið í fjárlagavinnunni, þegar fram verður haldið með rekstur þessarar stofnunar sem við erum hér að fjalla um, þá verði gripið til þeirra aðgerða sem eru nauðsynlegar til að tryggja að við stöndum ekki hér eftir tvö ár eða svo frammi fyrir sömu stöðunni. Það væri algjörlega óþolandi fyrir Alþingi ef það gerist. Það er óþolandi vegna þess að þar með væri verið að staðfesta það að við séum afsala okkur fjárveitingavaldinu til ríkisstofnana framkvæmdarvaldsins. Það er óþolandi fyrir þingið að standa frammi fyrir þeirri stöðu.

Ég skil vel rökin fyrir því að afgreiða málin á þennan hátt því að við viljum byrja með hreint borð, t.d. í heilbrigðismálunum og reyndar í fleiri málaflokkum sem koma fram hér í áliti meiri hlutans og ekki bara í heilbrigðismálum, þetta á líka við um sýslumenn og fleiri þar sem er verið að hreinsa upp hallann. Auðvitað þurfti að hreinsa þetta upp, það lá fyrir og þeir sem stofnuðu til hallans vissu að hallinn yrði hreinsaður upp fyrr eða síðar. En ég hefði viljað sjá, áður en við tækjum slíka ákvörðun, raunhæfar áætlanir um viðkomandi stofnanir þar sem sýnt væri fram á að við gætum treyst því að við stæðum ekki frammi fyrir sama vanda eftir eitt eða tvö ár.

En þá ber auðvitað að horfa til þess, t.d. eins og í heilbrigðismálunum, að þar er kominn núna nýr ráðherra í málaflokkinn og hann þarf tíma til þess að endurskipuleggja þennan viðamikla málaflokk. Hann hefur nú þegar gripið til ýmissa aðgerða sem við hljótum að gera okkur miklar vonir um að muni síðan skila góðum árangri til þess að menn haldi utan um þetta þannig að fjárveitingavaldið verði áfram hjá þinginu. Því ef skilaboðin með því sem við erum að gera núna eru þau að menn þurfi ekki að horfa á niðurstöðu fjárlaga, að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hversu mikla peninga við sem sitjum hér inni í þessum sal ætlum að setja til ákveðinna málaflokka, menn eyði bara því sem þeir þurfa að eyða og síðan verði reikningurinn borgaður þar á eftir, ef það væru skilaboðin með þessu, þá væri það alveg hræðilegt.

Af því að við höfum verið að tala um breytt verklag þá tel ég að fjárlaganefnd hljóti að ganga mjög skýrt eftir því við framkvæmdarvaldið, við viðkomandi ráðherra, við viðkomandi forstöðumenn þeirra stofnana sem hér um ræðir, að þessi halli myndist ekki aftur. Menn haldi sig innan þess ramma sem fjárlögin heimila. Það er lykilatriði.

Auðvitað er það þannig, og ég geri mér fulla grein fyrir því að það getur alltaf komið sú staða upp að menn fari einhverra hluta vegna fram úr, en það á að vera undantekningin en ekki reglan. Við vitum að í ákveðnum hluta af ríkiskerfinu hefur hallareksturinn verið reglan en ekki undantekningin. Það er það sem við verðum að breyta. Það er algjört lykilatriði.

Í lokin langar mig að minnast stuttlega á málefni Hitaveitu Suðurnesja sem hér hafa verið rædd. Ég er þeirrar skoðunar að þar hafi verið ágætlega haldið á málum hvað varðaði söluna. Sú hugsun að með því að selja hluta af þeirri hitaveitu, bjóða hana til sölu, reyndar með forkaupsákvæðum sveitarfélaganna, þannig að ef sveitarfélögin hefðu kosið að halda áfram að eiga þennan hlut þá hefðu þau getað keypt hlutinn, en hugmyndin var sú að þar með gæti einkageirinn komið að orkumarkaðnum, keypt sig inn í fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðurnesja, og síðan fyrir sinn eigin reikning, fyrir sína eigin peninga og fyrir eigin áhættu ráðist í útrás hvort sem það væri til Filippseyja, Indónesíu eða Djíbútí, eða hvað þeir heita nú allir þessir staðir sem á að fara með peninga okkar borgarbúanna til á næstu dögum og vikum. Það var í mínum huga það samstarf sem ég held að væri svo skynsamlegt til þess að nýta þá þekkingu sem búið er að byggja upp í íslenskum orkugeira, ef ekki hefðu því miður komið síðan til, kaup Orkuveitu Reykjavíkur á þessum hlut sem aftur á móti gerði það að verkum að margt af þeim ágætu áformum runnu út í sandinn og enduðu með þeirri skelfingu og ósköpum sem síðan varð raunin hér í Reykjavík.