135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:31]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir innlegg hans í umræðunni um fjáraukalög og þarf vart að taka fram, í ljósi umræðunnar fyrr á þessum fundi, að áherslur okkar fara saman í mörgum atriðum.

Ég er sammála því að vandi okkar í fjárlagagerðinni felst að verulegu leyti í gríðarlegum tekjuafgangi sem við sjáum í fjárlögum ársins og ekki síður í fjáraukalögunum núna. Þrátt fyrir þær tillögur sem liggja hér frammi, og sumum þykir vel í bætt, sjáum við fram á að tekjur í fjáraukanum aukast um 8,2 milljarða kr.

Ég er ekki alls kostar sammála hv. þingmanni um þær leiðir sem við eigum að fara varðandi þennan mikla tekjuafgang. Ég hefði viljað skoða það betur áður en ég samþykkti að nýta afganginn að verulegu leyti til að greiða inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar er áherslumunur á skoðunum okkar.

Ég tek hins vegar undir það sem hann hefur sagt varðandi uppgreiðslu á halla stofnana og nefni í því sambandi sjúkrastofnanir. Þar er tekist á við vanda sem hefur byggst upp á nokkrum árum og það væri óþolandi, ég tek undir það, ef fjárveitingavaldið yrði sett í þá stöðu eftir tvö ár að fá sömu útkomu aftur. Þetta kallar á skoðun fleiri þátta.

Ég vil þó í ljósi upphafsorða hv. þingmanns í ræðu hans áðan kalla eftir örfáum orðum um hvernig hann sjái okkur bæta spágerðina um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins.