135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:39]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék í ræðu sinni að því mikla ójafnvægi sem er í samfélaginu. Launabilið, munurinn milli tekna, hefur aldrei verið meira. Ef við lítum á sveitarfélögin þá hefur ójafnræði milli sveitarfélaga aldrei verið meira, a.m.k. ekki síðan ég fór að fylgjast með þeim málum. Í heilu landshlutunum, eins og hv. þingmaður kom inn á, lækka tekjur íbúanna og tekjur sveitarfélaganna mjög hratt og alvarlega. Viðkomandi sveitarfélög hafa engin tök á að bregðast við. Þau hafa það ekki á valdi sínu vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, m.a. í atvinnumálum.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann, frú forseti, hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því ásamt mér að koma til móts við þessi sveitarfélög beint, með afdráttarlausum hætti, sveitarfélögunum á Norðvesturlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi, á Norðausturlandi og Suðausturlandi, þar sem staðan er verulega erfið.

Þetta á ekki bara við um sveitarfélögin sjálf heldur og stoðþjónustu viðkomandi sveitarfélaga, heilbrigðisstofnanir, elli- og hjúkrunarheimili sem eiga í miklum rekstrarvanda og eru með uppsafnaðan halla. Ég nefni hjúkrunarheimilið í Búðardal, á Reykhólum, á Skagaströnd og heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga (GSv: Farðu nú út fyrir kjördæmið.) Heilbrigðisstofnanir austan lands eru í miklum fjárhagsvanda sem ekki er komið til móts við í fjáraukalagafrumvarpi. Ég (Forseti hringir.) spyr hv. þingmann: Er krafan núna ekki einmitt sú að jafna kjörin, jafna stöðu sveitarfélaganna í gegnum ríkissjóð sem (Forseti hringir.) hefur fitnað svo mjög undanfarið eins og hv. þingmaður kom inn á?

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutímann, sérstaklega þegar hann er stuttur.)