135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:42]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst er til að taka að tekjur sveitarfélaga hafa vaxið gríðarlega að undanförnu. Það á við um þau allflest en tekjur þeirra hafa vaxið mismikið. En þar á móti kemur Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna til að aðstoða sveitarfélög sem ekki hafa notið eins vel uppsveiflunnar.

Það breytir ekki því að ég deili áhyggjum hv. þingmanns af stöðu ýmissa landshluta. En það væri fjarri öllu lagi að halda því fram að ríkisstjórnin hafi staðið aðgerðarlaus hjá og ekki sinnt þessum vanda. Ég færði fyrir því rök áðan að menn væru komnir að ystu mörkum þess sem hægt er að gera þegar kemur að úthlutun úr ríkissjóði.

En af því hv. þm. Jón Bjarnason nefndi heilbrigðisstofnanir og rekstur þeirra þá vek ég athygli hans á lið 700 í áliti meiri hlutans. Þar er fjallað um heilbrigðisstofnanir. Þar er almennum rekstri lögð til 250 millj. kr. fjárveiting á þessum lið sem á eftir að skipta, en þar eru settir til hliðar fjármunir fyrir þennan málaflokk.

Aðalatriðið er að ég veit að við hv. þingmaður deilum ásamt mörgum öðrum skilningi á því að reyna verði að koma til móts við þá landshluta og sveitarfélög sem höllum fæti standa. Skilningurinn er ágætur hér í þinginu og hann er ágætur í ríkisstjórninni, sem birtist m.a. í þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til, fjárfestingum í menntamálum, fjárfestingum í vegamálum, fjárfestingum í félagsmálum og öllum þeim þáttum sem mega verða til að bæta mannlíf um allt land. Allar hugmyndir um að ríkisstjórnin sofi á verðinum og láti málið sig ekki varða eru rangar.