135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:10]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér augnablik í umræðuna um fjáraukalögin. Það hefur verið býsna merkilegt fyrir nýjan þingmann að fylgjast með þeirri umræðu sem farið hefur fram í þingsölum núna í næstum því fjóra klukkutíma. Ég verð að segja að mér hefur þótt á köflum svolítið erfitt að halda þræði í umræðunni og fylgjast beinlínis með því sem menn hafa haft hér fram að færa, enda kannski ekki skrýtið því að þetta er auðvitað mjög stórt mál sem er undir og það eru margir málaflokkar undir. Það fer svo sem eftir hverjum og einum hv. þingmanni hvað hann kýs að tala um hverju sinni, hvort það eru sveitarfélögin, Grímseyjarferjan, framhaldsskólar, hjúkrunarheimili, vegamál, skólar, heilbrigðisstofnanir o.s.frv.

Ég verð að segja að það hefur líka verið býsna athyglisvert og mikið lærdómsferli að taka þátt í þeirri vinnu sem liggur hér að baki og staðfestir raunar það sem sú sem hér stendur hefur haldið fram nokkuð lengi varðandi ríkisreksturinn og ríkisfjármálin og það lýtur að skorti á nákvæmni í áætlunargerð hjá ríkisvaldinu. Við sjáum það núna við afgreiðslu þessara fjáraukalaga að við horfum upp á viðvarandi hallarekstur á allt of mörgum stofnunum, því miður, og því þarf meiri hluti nefndarinnar að þessu sinni að leggja til 54 breytingartillögur upp á tæplega 5 milljarða kr. til hækkunar.

Það kemur einnig fram í meirihlutaáliti nefndarinnar að það sé álit nefndarinnar að á milli 2. og 3. umræðu þurfi að skoða sérstaklega framhaldsskóla almennt, rekstrarkostnað sýslumannsembætta, heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili og gera tillögu um skiptingu fjárheimildar á einstakar stofnanir. Sem sagt að enn þurfi að bæta í.

Þetta segir manni bara eitt og maður kemst að þeirri niðurstöðu, og ég held að um það geti stjórnarandstaðan verið sammála stjórnarmeirihlutanum, að það hafi tíðkast ákveðin lausatök við áætlanagerð hjá ríkinu. Það stendur að sjálfsögðu allt til bóta eins og hefur komið fram í umræðum, bæði af hálfu hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, og annarra sem hafa rætt fjáraukann í dag að núna stendur til að taka upp breytt vinnubrögð, rammafjárlög, og vonandi vandaðri áætlanagerð í framtíðinni.

Það er auðvitað alvarlegt mál og ég hef gagnrýnt það í gegnum tíðina á öðrum vettvangi, þegar Ríkisendurskoðun hefur hvað eftir annað gert athugasemdir við framkvæmd fjárlaga, gert athugasemdir við það hversu margar stofnanir ríkisins hafi ekki haldið sig innan fjárheimilda og farið fram úr þeim ár eftir ár. Það eru auðvitað vinnubrögð sem ganga ekki. Það hef ég gagnrýnt á öðrum vettvangi og gagnrýni hér en segi jafnframt að menn sjá það fyrir sér að breyta þessum vinnubrögðum. Þegar ný ríkisstjórn tók við í upphafi sumars var fjárlagagerðin eðli málsins samkvæmt komin mjög langt og erfitt um vik að gera miklar breytingar. Það er erfitt að snúa stóru skipi á einni nóttu, allt tekur þetta tíma og vinnubrögðin horfa til bóta.

Eins og kom fram í umræðunni hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, að ég hygg, stendur einmitt til á milli 2. og 3. umr. að bæta í fjárhæðir til heilbrigðisstofnana og til framhaldsskóla, það eru safnliðir upp á annars vegar 250 millj. og hins vegar upp á 150 millj. Það eru liðir sem á eftir að skoða og á eftir að fara yfir. Þegar við í fjárlaganefndinni vorum að skoða lista yfir heilbrigðisstofnanir óskuðum við einmitt eftir nákvæmara yfirliti og rökstuðningi á bak við hverja einustu heilbrigðisstofnun sem var á því blaði. Þar voru alls ekki allar heilbrigðisstofnanir tilgreindar eins og sú heilbrigðisstofnun sem við höfðum kannski mestar áhyggjur af, Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem við höfðum heyrt að ætti í miklum vanda. Við óskuðum eftir að fá upplýsingar um stöðu hennar og hvað væri lagt til varðandi þá stofnun sérstaklega. Þetta á auðvitað líka við varðandi framhaldsskólana.

Mig langar að ræða aðeins samgöngumálin. Það hefur verið nefnt í þessum sal að núverandi ríkisstjórn hyggst leggja mikla áherslu á samgöngumálin á næsta kjörtímabili og Samfylkingin lagði m.a. á það mikla áherslu í kosningabaráttu sinni síðastliðið vor að gera þyrfti stórátak í samgöngumálum. Það er skoðun mín að bættar samgöngur séu í raun og veru sú byggðastefna sem gefst best því að góðir vegir, greiðar samgöngur og góð fjarskipti eru auðvitað grunnurinn að því að hægt sé að byggja upp innviðina, byggja upp menntastofnanir, að sé hægt að flytja störf út á land o.s.frv.

Það eru hvorki meira né minna en 30 milljarðar sem áætlaðir eru í þetta stórátak á næstunni og þó að þetta kunni að sýnast há upphæð og miklir peningar er það skoðun mín að þetta sé bara fyrsta skrefið og þetta sé mesta stórátak sem ráðist hefur verið í í samgöngumálum Íslendinga allt frá því að hringvegurinn var lagður á sínum tíma og þótti ekki lítið afrek þá.

Hæstv. samgönguráðherra og við í samgöngunefnd höfum farið yfir þær hugmyndir sem uppi eru í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar varðandi vegalagningu og samgöngur víða um landið. Það er alveg ljóst að leikmanni kunna kannski ekki að þykja það merkilegir vegarspottar eða götur sem verið er að kynna en geta haft gríðarleg áhrif sums staðar og það getur skipt sköpum á stöðum úti á landi að fá almennilegar samgöngur, að fá vegina bætta, og þess vegna skiptir hver lítill vegarspotti máli í þessum efnum.

Ég vil einnig nefna fjarskiptin í þessu sambandi, GSM-væðingu landsins. Það hefur farið fram útboð á GSM-væðingu á vegum samgönguráðuneytisins og Fjarskiptasjóðs og þegar það verður allt komið til framkvæmda verður það auðvitað gríðarleg bót fyrir landsmenn að GSM-samband sé alls staðar, a.m.k. á þjóðvegi 1, hringveginum, ekki síst út frá öryggissjónarmiðum.

Þegar ég ræði um samgöngumál get ég ekki látið hjá líða að ræða líka samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, því að ég tel að um leið og við leggjum mikla áherslu á samgöngur úti á landi verður að horfast í augu við það að langmesta umferðin og langmesti umferðarþunginn er hér á höfuðborgarsvæðinu, þar eru flestir bílarnir og umferðin þar hefur aukist gríðarlega mikið. Hæstv. samgönguráðherra hefur kynnt að fjármagn til Sundabrautar, sem hefur verið áhugamál margra mjög lengi, þar á meðal þeirrar sem hér stendur, verði fært til á milli ára, frá 2008 til 2009, og það helgast ekki síst af því, vil ég leyfa mér að segja, að þáverandi borgaryfirvöld báru gæfu til þess að skoða upp á nýtt svokallaða ytri leið, þ.e. að farið yrði í jarðgöngum í Sundabraut frá Laugarnesi og upp í Álfsnes. Það er sú leið sem ég hef alltaf stutt og talið heppilegasta fyrir höfuðborgarsvæðið. Það var ákveðið að skoða þessa leið betur sem gerði það að verkum að verkið frestaðist. Nú er lokið vinnu við kostnaðarmat á þeirri leið þannig að mjög fljótlega munum við vera í þeirri stöðu ásamt yfirvöldum í Reykjavík að þurfa að taka af skarið og ákveða hvorum megin Sundabraut mun liggja, hvort farin verður svokölluð innri leið eða ytri leið, vegna þess að nú þegar kostnaðarmatið er komið og umhverfismatið á báðum leiðunum er komið, er ekkert eftir nema taka af skarið, taka ákvörðun um það hvora leiðina á að fara. Um leið og menn eru búnir að því er ekkert því til fyrirstöðu hefja framkvæmdir við Sundabraut á árinu 2009.

Ég nefni þetta hér vegna þess að Sundabraut er eitthvert stærsta samgöngumál landsins alls. Í umræðunni hefur stundum verið talað um að þetta sé bara mál Reykvíkinga og okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu en það er algjörlega af og frá. Það vita allir hversu miklu máli það skiptir fyrir landsbyggðina, sérstaklega Vesturland, að fá Sundabrautina, að fá veg, umferðaræð sem beina mun umferðinni af höfuðborgarsvæðinu í gegnum Sundabraut ef menn eru á leiðinni vestur á land eða norður, þannig að öll umferðin þurfi ekki að fara eftir Ártúnsbrekkunni, fyrir utan hvað það er líka mikið öryggisatriði.

Hv. þm. Jón Bjarnason ræddi um sveitarfélögin og eins og ég sagði í upphafi er býsna gaman að taka þátt í þessari umræðu vegna þess að menn fara út og suður í henni og ýmislegt ber á góma. Hv. þingmaður talaði um sveitarfélögin og vanda þeirra og þegar rætt er um fjárlög og fjáraukalög er sjálfsagt að ræða sveitarfélögin í því samhengi og fjárhag þeirra. Fjárhagur sveitarfélaga er auðvitað mjög misjafn en ég held að við stöndum frammi fyrir því verkefni núna að taka þurfi sérstaklega á vanda sveitarfélaga sem standa mjög illa. Vissulega standa ekki öll sveitarfélög illa, ég hygg t.d. að Reykjavíkurborg standi ágætlega. En það er einmitt verið að ræða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í Ráðhúsinu hinum megin við götuna, akkúrat núna þegar við erum að ræða fjáraukann, og ég veit ekki betur en menn líti björtum augum til framtíðarinnar þar og ég hugsa að svipað sé upp á teningnum hjá stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og stóru sveitarfélögunum úti á landi. Það sem er hins vegar að sliga mörg af þessum sveitarfélögum eru skuldir þeirra. Það er hreinlega spurning, herra forseti, að ríkisvaldið skoði að fara þá leið að koma til móts við sveitarfélögin m.a. með niðurgreiðslu skulda. Ég legg það hér inn í umræðuna.

Hv. þm. Jón Bjarnason, sem hefur verið ötull í þessari umræðu alveg frá því að hún hófst, gerði m.a. Grímseyjarferjuna að umtalsefni. Hann hefur nokkrum sinnum spurt mig út í það mál í þessum ræðustól og brást ekki væntingum mínum nú og talaði um Grímseyjarferjuna í umræðu um fjáraukalögin. Ég get hins vegar glatt þingmanninn með því að þær áætlanir sem nú eru uppi á borðum og ég hef nýlega séð gera ráð fyrir að sú tala sem okkur var kynnt í fjárlaganefnd varðandi heildarkostnað við byggingu ferjunnar muni standast og ef allt gengur að óskum mun ferjan vonandi geta siglt öðru hvorum megin við áramótin.

Herra forseti. Ég hafði í sjálfu sér ekki hugsað mér að koma efnislega inn á fleiri atriði að sinni. Það væri auðvitað hægt að tala hér í allt kvöld efnislega um einstök atriði frumvarpsins en ég lýk ræðu mínu á því að þakka samstarfsfólki mínu í fjárlaganefnd fyrir afar skemmtilega vinnu og skemmtilegar stundir við gerð þeirra fjáraukalaga sem við ræðum hér og þá ekki síst hv. þm. Jóni Bjarnasyni og öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar.