135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:25]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir kom hér að málefnum sveitarfélaganna. Ég ítreka að ég sakna þess að ekki skuli vera tekið enn frekar á málum þeirra því að eitt meginviðfangsefni núverandi ríkisstjórnar á síðasta sumri og í haust voru yfirlýsingar um mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskheimildum og inngrip í alvarlega stöðu ákveðinna landshluta og byggðarlaga og ekki hvað síst sveitarfélaganna.

Úttekt á stöðu sveitarfélaganna liggur fyrir og það er ljóst að nokkur sveitarfélög, einmitt á þeim svæðum sem við höfum verið að tala um að þurfi á fjárstuðningi að halda, standa mjög illa og mjög tæpt að þau geti haldið uppi lögboðinni þjónustu sem er forsenda þess að öflugt atvinnulíf blómgist á viðkomandi stöðum. Á því finnst mér ekki tekið í þessu frumvarpi miðað við þau loforð og yfirlýsingar sem ríkisstjórnin gaf á síðastliðnu sumri, og vegna þeirra væntinga sem fólk hefur borið til þessara yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar tel ég það kannski eitt af því alvarlega í fjáraukalagafrumvarpinu að ekki er staðið við þær.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún muni beita sér fyrir því að tekið verði raunverulega á fjárhag þeirra sveitarfélaga sem veikast standa og einnig á fjárhagsstöðu (Forseti hringir.) opinberra þjónustustofnana í viðkomandi sveitarfélögum (Forseti hringir.) sem standa líka mjög höllum fæti, herra forseti.