135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirlýsingarnar því að þingmaðurinn er einnig formaður samgöngunefndar sem er ein mikilvægasta nefndin og undir hana heyra verkefni sem lúta einmitt að því að tryggja samkeppnisstöðu hinna ýmsu landshluta og byggða.

Ég velti þess vegna fyrir mér hvort hv. þingmaður muni ekki vilja styðja mig og aðra sem hafa barist fyrir auknum framlögum til svokallaðra sveitavega, vega sem eru inn til dala og út til stranda, malarvega sem eru orðnir áratugagamlir og hafa fengið afar lítið viðhald á undanförnum áratugum, hafa reyndar verið vanræktir. Fjárveitingar til þessa málaflokks, til þessara vega sem eru grundvöllurinn að því að styrkja innviði samfélaganna út um land, hafa verið alveg skammarlega naumar og þó að nokkru sé bætt í á vegáætlun á næstu árum er það of lítið miðað við hina miklu þörf. Þarna er afar brýnt að taka á.

Eins er annar þáttur sem hvorki sér stað í þessu frumvarpi né heldur í fjárlagafrumvarpinu, finnst mér, og það er stórátak í almenningssamgöngum. Þær virðast hafa gleymst í flumbruganginum og græðginni í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Mun hv. þingmaður beita sér fyrir stórátaki í almenningssamgöngum sem mér finnst kannski vera eitt af brýnum málum í samgöngumálum þjóðarinnar?