135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifærið hér og þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir ræðu hennar og sérstaklega þær upplýsingar sem hún veitti þingheimi um verkefnið Sundabraut og allt sem því tengist. Auðvitað er það þannig að það eru hér fjölmörg verkefni í samgöngumálum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og vítt og breitt hringinn í kringum landið sem skipta landsmenn máli og það er ánægjulegt til þess að vita að miðað við þær upplýsingar sem fram komu hjá hv. þingmanni hversu langt þetta er fram komið.

Ég vil einnig taka undir þau orð hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur að þær upphæðir sem gert er ráð fyrir í fjárlögum næsta árs varðandi vegaframkvæmdir eru þær mestu sem þingið stendur frammi fyrir á síðari tímum og jafnvel á fyrri tímum því að um er að ræða mikla viðbót og það stóra átak sem á að fara fram í vegamálum mun væntanlega ná til sveitavega líkt og hv. þm. Jón Bjarnason kom að hér áðan.

Ég vil einnig vekja athygli á því að miðað við þær tillögur um breytingar á Stjórnarráðinu liggur fyrir að um næstu áramót flyst málaflokkur sveitarfélaga yfir til samgönguráðuneytisins og þar af leiðandi mun verða fjallað um þau mál í samgöngunefnd, sem hv. þm. Jón Bjarnason tilnefndi sem bestu nefndina á þinginu, þannig að sveitarfélögin fá verðugan sess hér inni á þingi.