135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[18:35]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér eru til 2. umr. fjáraukalög fyrir árið 2007. Ég vil fara nokkrum orðum um þau, aðallega út frá stöðu þingsins hvað varðar afgreiðslu fjárlaga og hvað varðar það ákvæði í lögum um fjárreiður ríkisins.

Ég vil lesa hér upp stuttan kafla úr nefndaráliti frá minni hluta fjárlaganefndar svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“

Þetta er mjög skýrt í lögunum og við heyrum oft við afgreiðslu fjáraukalaga hvað það sé í raun og veru óþolandi hversu margar stofnanir fara fram úr fjárlögum hvers árs og að þeim sé það í fyrsta lagi ekki heimilt og það sé bundið í lögum að hver einasta stofnun haldi sig innan fjárlagarammans.

Ég vil benda á það hér að við höfum svo lengi sem ég hef fylgst með á Alþingi, og það áður en ég settist inn á þing, þá hef ég ekki orðið vör við að unnið sé samkvæmt þessu ákvæði hvað fjáraukalögin snertir, því að það er hægt að afgreiða fjáraukalög hvenær sem er yfir árið ef ófyrirséð atvik koma upp og þá er hægt að veita til þess fjármagn. Það væri hægt að afgreiða fjáraukalög oftar en einu sinni á ári en sú hefð sem hefur myndast á Alþingi er að í lok hvers árs sé farið yfir stöðu stofnana ríkisins og ýmissa þeirra atvika sem hafa komið upp á árinu, t.d. skoðaðir ýmsir útgjaldaliðir, og afgreitt í fjáraukalögum. Eins og fjárlögin voru afgreidd fyrir árið 2007 leyfi ég mér að fullyrða að nær allir þeir málaflokkar sem hér er verið að bæta í og styrkja með tillögunum sem meiri hluta fjárlaganefndar hefur lagt fram er vegna hallareksturs sem var fyrirsjáanlegur. Þetta eru ekki óvænt og ófyrirséð atvik, við afgreiðslu síðustu fjárlaga fyrir 2007 var þetta fyrirsjáanlegt að mestu leyti.

Því legg ég mikla áherslu á að við afgreiðslu fjárlaga 2008 verði sérstaklega horft til sjálfrar stofnunarinnar, Alþingis, og farið yfir það með hvaða hætti sé hægt að styrkja fjárlagagerðina, hvernig hægt sé að styrkja fjárlaganefnd í störfum hennar og hvaða sérfræðinga við þurfum að ráða við stofnunina til þess að hún verði sjálfstæðari í störfum sínum og geti unnið betur að fjárlagagerðinni með sjálfstæðum hætti. Ég hvet til þess að milli 2. og 3. umr. verði þetta sérstaklega skoðað þannig að það verði hægt að standa við þau fyrirheit sem gefin hafa verið hér af hv. stjórnarþingmönnum um að breyta vinnubrögðum Alþingis, að gera fjárlagagerðina sjálfa raunhæfari þannig að ekki komi til þessarar afgreiðslu eins og verið hefur, að það sem út af hefur staðið og vitað hefur verið um hafi verið afgreitt með fjáraukalögum og látið reka á reiðanum með marga hluti.

Forsendan er jú sú að Alþingi sjálft hafi það bolmagn og þá þekkingu í sínum röðum að ráða við gerð fjárlaga betur en verið hefur og betur en Alþingi hefur gert fram að þessu. Fjárlaganefnd þarf að styðjast við sérfræðiþekkingu hagfræðinga og eins er nauðsynlegt að fjárlaganefnd taki fyrir ákveðna málaflokka, ákveðnar stofnanir, geri úttekt á þeim málaflokkum sem undir fjárlögin heyra og skoði þannig að fjárlaganefndin sjálf geti dæmt um það hvort rekstrargrunnurinn sé í raun eðlilegur.

Þegar horft er til t.d. framhaldsskólanna eða heilbrigðisstofnananna, og þá á ég bæði við stóru sjúkrahúsin eins og Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og minni stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili og hjúkrunarheimili, þá kemur fram hvað varðar fjáraukalögin að þessar stofnanir eru í dag allar reknar með halla, þó svo að verið sé að koma til móts við sumar þeirra í dag. Þar vil ég sérstaklega nefna Landspítalann sem á þessu ári hefur verið rekinn með 1,8 milljarða kr. halla og nú á að núllstilla þá stofnun. Það er þess vegna mjög mikilvægt að skoða hvort það að núllsetja þessa stofnun nægi til þess að áætla að fjárlög næsta árs óbreytt muni duga til rekstursins, hvort ekki sé eitthvað innbyggt inn í rekstur stofnunarinnar sem muni áfram krefjast eða kalla á umframfjárframlög, t.d. verðhækkanir eða vísitöluhækkanir, þannig að við stöndum ekki frammi fyrir svona miklum halla og verið hefur hjá Landspítalanum árlega undanfarin ár. Það er eitthvað rangt inni í fjárlagagerðinni sjálfri, það er eitthvað rangt við afgreiðslu hvers árs, hvort það er eingöngu að það er ekki horft á rekstraráætlun sjálfrar stofnunarinnar og tekið tillit til hennar eða hvort stofnunin er að sinna miklu víðtækari þjónustu en kveðið er á um í lögum, eða hvaða atvik það eru sem verða til þess að reksturinn fer svona úr böndunum.

Nú er það sammerkt með öllum heilbrigðisstofnunum, stórum og smáum, að þær hafa allar átt í miklum erfiðleikum með að halda starfsfólki og hefur þar m.a. komið til aukavinnu og hærri launakostnaðar en verið hefur. Því tel ég mikilvægt hvað varðar fjárlagagerð næsta árs, fyrir 2008, að reynt sé að leggja mat á það hvað þurfi að koma inn í rekstur þessara stofnana til að styrkja þær það mikið að þær ráði fram úr þeim vanda sem þær eru í í dag. Að ráða til sín starfsfólk er vandi sem er fyrirsjáanlegur áfram hjá þessum stofnunum og við erum að keppa á hinum opinbera markaði við hinn frjálsa markað og úr þessu verður svo vítahringur því þegar starfsfólki fækkar, sama í hvaða stétt það er innan heilbrigðisstofnunarinnar, eykst álagið og fólk hreinlega hrökklast svo úr vinnu. Þegar starfsmenn eru spurðir hvað hafi mest áhrif á starfsgleði eða það að vilja vera áfram hjá viðkomandi stofnun er nefnt jöfnum höndum vinnuálag, hversu mikið það er, og launin. Þetta fer auðvitað saman og því er mikilvægt að horfa á þennan þátt þegar kemur að sjálfri fjárlagagerðinni fyrir 2008. Þetta er innbyggt í vanda þessara stofnana í dag og því er vísað núna til 3. umr. að skoða sérstaklega framhaldsskóla almennt, rekstrarkostnað sýslumannsembætta, heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila og gera tillögu um skiptingu fjárheimildar á einstakar heilbrigðisstofnanir. Enn fremur mun nefndin skoða á milli umræðna málefni er varða eignir á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.

Þetta er í sjálfu sér allt gott og er þá töluverð vinna eftir hjá fjárlaganefndinni að skoða sérstaklega framhaldsskólana og rekstrarstöðu heilbrigðisstofnana en það er auðvitað jafnmikilvægt að fara í þessa vinnu og ég tel að sú vinna hefði þegar átt að liggja að baki, að nú við 2. umr. hefði staða þessara málaflokka átt að liggja ljós fyrir. Ég óska fjárlaganefnd góðs gengis þessa fáu daga sem hún hefur til þess að fara í þá miklu vinnu en þetta styrkir þá skoðun mína að það sé mikilvægt að horfa til sjálfrar stofnunarinnar, Alþingis, og styrkja hana hvað varðar fjárlagagerð næsta árs.

Ég vil nefna hér, hæstv. forseti, hvað varðar afgreiðslu fjárlaga til þeirra stofnana sem eru bundnar af ákveðinni þjónustu sem er bundin í lögum og reglugerðum, t.d. framhaldsskólarnir og heilbrigðisstofnanirnar sem bera ákveðnar skilgreindar þjónustuskyldur fyrir almenning. Hver einasta heilbrigðisstofnun hefur ákveðna skilgreinda skyldu gagnvart sínu nærsamfélagi og þjónustu við sjúklingana. Þegar svo er og það er alveg augljóst við gerð rekstraráætlana, sem ég geri þá ráð fyrir að séu vandlega unnar og ekki sé hægt að vefengja þær, að þegar ljóst er að endar nái ekki saman miðað við fjárlög er það mjög alvarlegt að mínu mati að þegar forstjórar þessara stofnana koma til viðkomandi ráðherra, t.d. heilbrigðisráðherra, og gera ráðherra grein fyrir að miðað við þær skyldur og þann rekstur sem hefur verið og þá þjónustu sem stofnuninni er ætlað að sinna, að þetta gangi ekki miðað við fjárlög viðkomandi árs, að þá sé ráðherra ekki ábyrgur gagnvart því hvar eigi að draga saman, hvar eigi að minnka þjónustuna heldur geri stofnunina ábyrga fyrir því eða, sem miklu algengara er, að svarið sé: Það á engu að breyta í þjónustunni.

Þetta eru auðvitað mjög erfið skilaboð til hvers einasta forstöðumanns, forstjóra og starfsfólks, að vera bundið af lögum um fjárreiður ríkisins og lögð rík áhersla á það að halda sig innan fjárlaga en á sama tíma er viðkomandi stofnun sagt að þrátt fyrir að fyrirsjáanlega muni endar ekki ná saman sé ekki heimilt að minnka þjónustuna. Þetta er náttúrlega ekki hægt. Ráðherra verður þá að vera ábyrgur í þessu máli eða, sem miklu eðlilegra væri, að fjárlög tækju tillit til rekstursins. Þetta á við um nær öll öldrunar- og hjúkrunarheimili því að daggjöldin hafa ekki hækkað og ekki fylgt vísitöluhækkunum og þetta á við um nær allar heilbrigðisstofnanir. Þetta eru þau svör sem forstöðumenn þessara stofnana fá og eiga þar af leiðandi í miklum erfiðleikum.

Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að það er algjörlega út í hött að ætlast til að forstöðumenn og starfsfólk heilbrigðisstofnana haldi áfram að finna leiðir til að spara. Undanfarin ár hefur verið reynt að horfa á hverja einustu smugu til að spara. Þegar það er komið alveg niður í bleyjuskipti á öldrunarstofnunum segi ég: Það er ekki hægt að spara meira, það er komið að ákveðnum mörkum. Þetta er því spurning um þjónustu, þetta er spurning um þjónustustig og bara hreinlega um það hvort við ætlum að halda uppi því þjónustustigi í heilbrigðisþjónustunni sem ég tel að sátt hafi verið um fram til þessa. Það er ekki lengur hægt að draga saman rekstrarkostnaðinn inni á stofnunum með almennum sparnaði í rekstri, það er búið að fara allar þær leiðir sem hægt er að fara, ég leyfi mér að fullyrða það.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fjáraukalögin en hvet hv. fjárlaganefnd til dáða á stuttum tíma til að fara í þá vinnu sem ég tel að hefði átt að vera lokið og afla upplýsinga um stöðu þeirra stofnana sem um ræðir. Það eru nægir fjármunir til að seilast í til þess að leiðrétta rekstur þessara stofnana á þessu ári og þá eru meiri líkur á því að byrja á hreinu borði á næsta ári og að fjárlagagerð þess árs standist betur.