135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:04]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel ljóst að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séum tilbúin að vinna að því að breyta afgreiðslu fjárlaga. Ég minni á að hv. þm. Jón Bjarnason hefur á nærri hverju ári, þau ár sem hann hefur setið á þingi, lagt til að fjáraukalög væru afgreidd tvisvar á ári til að skoða betur það sem út af stendur hvað varðar fjárlagagerðina og afgreiða þau í anda þess sem fjárreiðulögin segja til um.

Við munum sannarlega standa að því að styrkja stöðu Alþingis gagnvart fjárlagagerðinni, t.d. ráða hingað hagfræðing sem ynni þá með nefndinni. Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður, sem aldrei skyldi verið hafa, þá höfum við sem löggjafarvald ekki þá sjálfstæðu stofnun sem þarf til þess að fylgja eftir fjárlagagerð hvers árs varðandi þjóðhagsspá, hagspár og annað slíkt. Alþingi þarf því vegna þessara breytinga að vera miklu sjálfstæðara og hafa afl til að vera sjálfstæðara í vinnubrögðum gagnvart framkvæmdarvaldinu en það er í dag.