135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð einkamála.

232. mál
[19:57]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Megintilgangur þess er að fullgilda þrjá alþjóðasamninga á sviði einkamálaréttarfars sem kenndir eru við borgina Haag í Hollandi. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og miða tillögur frumvarpsins að því að tryggja fullt samræmi milli þessara samninga og réttarfarslaga.

Er í fyrsta lagi um að ræða samning frá 1954, um einkamálaréttarfar, sem lýtur m.a. að birtingu réttarskjala og utanréttarskjala fyrir mönnum sem dveljast erlendis, um réttarbeiðni til að fram fari sönnunarfærsla eða önnur dómsathöfn innan lögsögu annars samningsríkis, málskostnaðartryggingu o.fl.

Í öðru lagi er samningur frá 1965 um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum og hefur hann leyst þann hluta samningsins frá 1954 af hólmi.

Þá er í þriðja lagi um að ræða samning frá 1970 um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum, annars vegar með réttarbeiðni og hins vegar fyrir milligöngu sendi- eða ræðiserindreka eða sérstaklega tilnefndra manna.

Tvennar breytingar eru lagðar til vegna gagnaöflunar, annars vegar fyrir dómstóla erlendis og hins vegar fyrir dómi hér á landi samkvæmt beiðni frá öðru ríki. Í fyrra tilvikinu er lagt til að gagnaöflunin erlendis fari eftir lögum viðkomandi ríkis og þjóðréttarsamningi, sé hann í gildi á milli ríkjanna. Þetta er eingöngu til áréttingar auk þess sem ákvæðið vísar til þess að þjóðréttarsamningur geti gilt um slíka sönnunarfærslu, samanber 1. gr. frumvarpsins.

Í síðara tilvikinu er lagt til að haga skuli öflun sönnunargagna í samræmi við þjóðréttarsamning, sé slíkur samningur í gildi við hlutaðeigandi ríki, samanber 2. gr. frumvarpsins. Þetta er þó bundið þeim fyrirvara sem liggur í hlutarins eðli, að málsmeðferðin fari ekki í bága við ákvæði laganna.

Fyrir því er löng venja í samskiptum ríkja að stefnur séu birtar landa á milli. Helgast það af gagnkvæmni í samskiptum ríkja sem lýsir sér í því að ríki getur ekki vænst þess að stefnur frá því séu birtar í öðrum ríkjum ef viðkomandi ríki sjálft er ekki reiðubúið til að verða við slíku. Venjulega liggja ekki fyrir upplýsingar um lögfylgjur stefnubirtingar vegna máls sem rekið er í öðru ríki þegar leitað er eftir birtingu. Með hliðsjón af því að þetta getur verið íþyngjandi fyrir þann sem birting beinist gegn þykir rétt að leggja til með frumvarpinu að lagastoð verði skotið undir þá venju að birta hér á landi stefnur frá öðrum ríkjum, samanber 3. gr. frumvarpsins.

Þá þykir einnig rétt að gera þann áskilnað í þessu ákvæði að birtingunni skuli hagað í samræmi við þjóðréttarsamning, ef hann er fyrir hendi, sem jafnframt þjónar þeim tilgangi að benda á að þjóðréttarsamningar kunni að gilda í þessum efnum við önnur ríki.

Loks eru lagðar til tvennar breytingar á reglum laganna um málskostnaðartryggingu til að tryggja fullt samræmi við samningana samanber 4. gr. frumvarpsins, annars vegar að þeim sem búsettir eru í aðildarríkjum samningsins um einkamálarétt frá árinu 1954 verði ekki gert að leggja fram málskostnaðartryggingu af þeirri ástæðu að þeir séu búsettir erlendis. Hins vegar er lagt til að úrlausn erlends dómstóls um skyldu til að greiða málskostnað á hendur þeim sem er búsettur hérlendis og hefur verið undanþeginn að leggja fram málskostnaðartryggingu verði aðfararhæf.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.