135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð sakamála.

233. mál
[20:19]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að gagnrýna það að þetta mikla frumvarp sem hér hefur verið lagt fram skuli tekið til umræðu á kvöldfundi. Það er ekki sérlega fjölskylduvinsamlegur tími. Það er ýmislegt annað sem við getum gert innan núgildandi þingskapa en að breyta ræðutíma við 2. umr. mála að því er þetta varðar. Ég hefði kosið að þetta frumvarp yrði rætt að viðstöddum sem flestum þingmönnum en ekki þegar klukkan er langt gengin í níu. Frumvarpið á það líka skilið.

Ég er farinn að spyrja mig í hvert skipti þegar frumvarp á sviði dómsmála og hegningarlaga rekur á fjörur Alþingis hvort við stefnum með þeim í átt til aukins lýðræðis og efldra mannréttinda eða hvort við förum í öfuga átt. Mér hefur fundist að þau frumvörp sem hafa komið fram eftir hörmungaratburðina í Bandaríkjunum 11. september 2001 hafi gjarnan mótast af þeim skyndiaðstæðum sem þá komu upp og menn hafi ekki alveg haldið yfirvegun í því sambandi. Fjöldi lagafrumvarpa hefur verið samþykktur á Alþingi frá þeim tíma sem ég tel að hafi gengið frá mannréttindum í átt til þess sem ég kalla lögregluríki eða í þá veru fremur en hitt án þess að fyrir liggi skilgreining á því við hvaða ógn við búum á Íslandi og hver er þörfin á því að takmarka eða þrengja að borgaralegum réttindum.

Ég mun líka skoða þetta frumvarp þeim augum: Stefnir það í átt til lýðræðis og aukinna mannréttinda eða í öfuga átt? Almennt vil ég þó segja að ég fagna þessari endurskoðun og ég veit fyrir víst að sú vinna sem að baki liggur er vönduð og leitað hefur verið til færustu sérfræðinga á þessu sviði, það þekki ég. Að mínu mati var full þörf á þessari endurskoðun og það er afar margt til bóta í frumvarpinu og vinnan bak við það er eins og ég sagði vönduð, og þó að ég segi það þýðir það ekki að ég sé sammála öllum afrakstri þeirrar vinnu.

Vil ég þá víkja fyrst að frumvarpinu almennt. Ég tel að nafngiftin sem slík, frumvarp til sakamála, sé góð og ég tek undir röksemdir sem koma frá frumvarpshöfundum um að orðin brotamál og refsimál séu ekki eins hlutlaus og orðið sakamál sem er ekki eins gildishlaðið.

Ég fagna því líka að það skuli vera leitast við að samræma málsmeðferð samkvæmt opinberum lögum og lögum um meðferð einkamála, það þykir mér gott mál. Ég vildi helst sjá sem mesta samhæfingu á því sviði þó að ég geri mér fullkomlega ljóst að það sé ekki hægt að öllu leyti. Ég fagna því líka að það skuli vera setti inn ákvæði í lögin sem mæla fyrir um aðgang að gögnum úr opinberum málum, ákærum og öðrum gögnum, settir eru ákveðnir tímafrestir en það er ekki lokað fyrir það að lögregla veiti frekari upplýsingar.

Ég fagna því líka að það skuli hafa orðið þó þessi aðskilnaður milli lögreglurannsókna, hæstv. dómsmálaráðherra, og ákæruvalds með skipan héraðsdómstóla. Ég hefði sjálfur viljað ganga alla leið og aðskilja lögreglurannsóknir og síðan ákæruna, hafa skil þar á milli. En þetta er engu að síður til bóta eins og það er. Eins er til bóta ákvæði um skýrslutökur.

Það sem ég hnýt e.t.v. mest um eru fyrirmæli í IX.–XIV. kafla laganna um svonefnd þvingunarúrræði sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur laga um sakamál. Ég kem betur að því síðar. Þar er m.a. vísað í skýrslu nefndar sem dómsmálaráðherra skipaði á sínum tíma til að fjalla um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og ég man ekki betur en að sá sem hér stendur hafi verið í þeirri nefnd á sínum tíma. Ég hefði kosið að sú skýrsla eða það sem notað er úr henni hefði verið fylgirit með þessu frumvarpi en ég þykist vita að allsherjarnefnd muni afla þeirrar skýrslu þannig að hún verði til við vinnslu málsins. Það eru ákvæði í þessum þvingunarköflum sem valda mér áhyggjum af því að þar sýnist mér kúrsinn vera tekinn frá lýðræði og mannréttindum, heimildir lögreglu rýmkaðar á kostnað mannréttinda og einstaklingsfrelsis.

Það er ágætt að tekin skuli hafa verið upp ákvæði sem snúa að höfðun sakamáls að kröfu brotaþola og ég tel afar gagnlega þá breytingu sem lögð er til um að ákærða verði gefinn kostur á að skila greinargerð. Ég hefði þó, hæstv. dómsmálaráðherra, viljað ganga jafnvel lengra í þeim efnum og gera það að skyldu fyrir lögmenn eða ákærða að skilað væri málsvörn fyrir sakborninga eða ákærða í málum. Sjálfur hef ég á mínum ferli sem lögmaður gert það vegna þess að þá skjalfestir maður málsvarnir hins ákærða og Hæstiréttur fær þær síðan á skjali til sín. Ég hefði því í þessu tilviki sett beint samasemmerki milli greinargerðar stefnda í einkamálum og ákærða í refsimálum.

Ég ætla ekki að fara miklu meira í þennan almenna kafla. Ég hefði þó kosið að frestur til að afhenda verjanda eða réttargæslumanni málsgögn væri styttur, ég tel hann of langan, þrjár vikur. Frumvarpið er að vísu ekki að breyta neinu í því samhengi en ég tel frestinn of langan.

Ég get almennt sagt að öll ytri umgjörð og ákvæði sem varða málsmeðferð og annað slíkt eru mjög til bóta í þessu frumvarpi og þarna er vönduð vinna. Það sem ég tel mikilvægasta kafla þessa frumvarps er IX. kafli og áfram, um það sem ég nefndi áðan, þvingunarúrræði laganna. Þvingunarúrræði sakamálalaga fela alltaf í sér skerðingu á mannréttindum, hjá því verður ekki komist, gæsluvarðhald, leit, haldlagning, og þar fram eftir götunum. Það er vandratað meðalhófið í þeim efnum. En það er ein grundvallarregla sem löggjafinn skyldi ætíð hafa í huga þegar þetta meðalhóf er ratað, að túlka vafann ætíð mannréttindum og einstaklingum í hag, ekki lögreglu. Það sem ég vil almennt gagnrýna í þeim köflum sem ég nefndi er að þar hafa lögregluhagsmunir og rannsóknarhagsmunir haft meira vægi, þeir eru teknir fram fyrir mannréttindin. Um það eru allmörg dæmi sem ég mun auðvitað fyrst og fremst gera að umtalsefni og umfjöllunarefni í nefndarstörfum innan allsherjarnefndar þó að ég tæpi á örfáum hér. Ég get nefnt 69. gr., um hald á munum, en þar segir:

„Nú vill eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, ekki hlíta þeirri ákvörðun og getur hann þá borið ágreiningsefnið undir dómara.“

Þetta kemur víða fyrir í þessum þvingunarúrræðisköflum. Ég er á því að slík þvingunarúrræði eigi lögreglan nánast undantekningarlaust að bera undir dómstóla áður en gripið er þeirra, að meginreglu til áður en gripið er til þvingunarúrræða, en ef brýna nauðsyn ber á þvingunarúrræðum og ekki gefst tími til að fara dómstólaleiðina þá eigi að fara eftir á fyrir dómstóla. Þar er ekki verið að íþyngja lögreglu eða nokkrum vegna þess að hvarvetna um landið eru dómarar á bakvakt og það er auðvelt að leita til þeirra, það er hægt að ná til dómara um allt land á skömmum tíma, innan hálfs sólarhrings, nema sérstaklega standi á með veður eða eitthvað slíkt, en það heyrir til undantekninga.

Um þá kafla sem ég nefndi, þvingunarúrræðiskaflana, má líka nefna annað sem ég hef áhyggjur af í þessu sambandi og það er hin sígilda spurning: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? Hver á að hafa eftirlit með lögreglunni þegar hún grípur til þvingunarúrræða? Ég tel að þessi spurning sé skilin eftir í of lausu lofti í frumvarpinu, að það sé ágalli á þessum köflum öllum að öryggisventlarnir eru ekki nægilega góðir. Dæmi um rýmkun í þágu lögreglu er lokamálsgrein 72. gr. um að lögregla skuli hlutast til um að skila munum sem hafa verið haldlagðir, teknir með þvingunarúrræðum. Auðvitað á að snúa þessu við, lögreglan á að hafa skyldu til að skila slíkum hlutum þegar þeirra er ekki þörf lengur og þeir hafa ekki orðið til við refsivert athæfi.

Í 75. gr. er fjallað um leit. Það er sama þar. Þar getur sá sem þetta bitnar á farið eftir á til dómstóla og borið ágreiningsefnið undir dómara þótt það fresti ekki húsleitinni. Þetta er rýmkun að nokkru leyti og þar hygg ég að lögreglan ætti að leita eftir á til dómstólsins og fá réttlætingu gerða sinna en vísa ekki mannréttindaskerðingunni eða þvingunarúrræðinu yfir á þann sem þolir þvingun og segja: Far þú og sæktu réttinn. Þarna á lögreglan að sækja staðfestingu á því að henni hafi verið þetta heimilt og þetta á að vera opið með þeim hætti.

Ég set líka spurningarmerki við ákvæðin um þvagsýna-, blóðsýna- og lífsýnatöku. Þar er enn eina rýmkunina að finna, þ.e. að taka lífsýni úr öðrum en sakborningum. Þar erum við að feta inn á nýja braut sem ég hef verulegar efasemdir um. Þar eru enn fremur heimildir til að framkvæma líkamsleitina og sýnatökuna og leita svo úrskurðar eftir á og það gagnrýni ég líka.

Á blaðsíðu 129–130 í frumvarpinu er vikið að XI. kafla laganna og þar kemur m.a. fram að við gerð kaflans hafi verið höfð hliðsjón af tillögum nefndar, sem dómsmálaráðherra skipaði á sínum tíma til að fjalla um sérstakar, óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu, en tillögurnar er að finna í skýrslu nefndarinnar sem út kom í aprílmánuði 1999, eins og fram kemur í frumvarpinu. Fram kemur að farið sé eftir þessum tillögum að nokkru en þó er vikið frá tillögum þessarar nefndar í afar veigamiklum atriðum.

Í fyrsta lagi lagði nefndin til að þegar gripið yrði til aðgerða yrði rannsókn að beinast að fyrir fram tilteknum brotum, þar á ég við hlustunarúrræðin og myndatökur og sitthvað fleira — ég er að tala um símahlustun og önnur sambærileg úrræði í XI. kaflanum. Þar vildi nefndin að vísað væri til tiltekinna hegningarlagaákvæða sem brotin væru. Því er hafnað og í greinargerðinni er því borið við að lagatæknileg vandamál fylgi því að fara þá leið að tiltaka þau hegningarlagaákvæði sem eru undir. Þar segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Þannig verða lagaákvæðin bæði flóknari og vandmeðfarnari, lagatæknilega séð, þar á meðal vegna þess að huga þarf að breytingum á þeim í hvert sinn sem hlutaðeigandi ákvæðum hegningarlaga kann að verða breytt. Það sem skiptir þó meira máli í þessu sambandi er að vafasamt er að einskorða heimild lögreglu til að grípa til þessara aðgerða í þágu rannsóknar við það að hún beinist að fyrir fram ákveðnum brotum.“

Lagatæknileg ákvæði eða vandamál í framkvæmd geta aldrei réttlætt það að mannréttindum sé ýtt til hliðar.

Í annan stað lagði nefndin til, sú sem skilaði skýrslu í apríl 1999, að sá sem sætir símahlustun og fleiri slíkum þvingunum — það er eðli þeirra að sá sem hlustunin beinist að, hlerunin beinist að, veit ekki af aðgerðinni — nefndin lagði til að danskri og norskri fyrirmynd að þessum aðilum sem þvingunarúrræðið beindist gegn væri skipaður réttargæslumaður, öryggisventill á lögregluna. Því er hafnað í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram og ég tel það vera afar miður.

Við getum verið fullsæmd að því að fara að því sem Danir og Norðmenn hafa gert í þessum efnum og tryggt réttaröryggi þeirra sem sæta símahlerunum og öðrum sambærilegum úrræðum en í þessum tilvikum ræður lögreglan algjörlega för og rökstuðningi máls. Þetta gagnrýni ég. Ég gagnrýni líka að það er dregið úr skilyrðum í 80. gr. Skilyrðin eru rýmri og þar er enn þrengt að mannréttindum.

Ég hef líka áhyggjur af mannréttindum í 82. gr. Þar er nýmæli um að koma fyrir búnaði á eða inni í bifreið eða öðru farartæki. Ég leggst ekki gegn þessu rannsóknarúrræði, það má ekki skilja orð mín þannig. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segir um 82. gr. orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Þær rannsóknaraðgerðir, sem hér um ræðir, fela í sér óvenju mikla skerðingu á friðhelgi einkalífs þeirra sem þær beinast að. Það stafar ekki síst af því að með þessu móti er unnt að afla upplýsinga um daglegar athafnir fólks, á heimilum þess sem annars staðar, án vitundar þess. Segja má að hér sé gengið enn lengra í þá átt að skerða friðhelgi einkalífs manna en þegar símtöl og önnur fjarskipti þeirra eru hleruð og þau tekin upp …“

Þetta er sem sagt opið ákvæði og þarna vantar sárlega eftirlit með eftirliti. Ef þetta er svona brýnt mál þá þarf þess með.

Ég sé, herra forseti, að tími minn er liðinn. Ég á fleiri athugasemdir eftir og ég læt auðvitað málið til mín taka í allsherjarnefnd. En ég vil ljúka orðum mínum með því, og biðst velvirðingar á því að fara fram yfir tímann, að þakka fyrir þá miklu og vönduðu vinnu sem þarna liggur að baki.