135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð sakamála.

233. mál
[20:40]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framlag hans til umræðunnar en mér finnast þetta vera dæmigerð atriði sem athuguð verða í allsherjarnefndinni þegar farið verður yfir frumvarpið. Lögregla mun m.a. skýra sitt mál og menn vega og meta þá hagsmuni sem eru í húfi út frá sjónarmiðum allra sem starfa þurfa eftir lögunum. Brýnt er að lögin séu þannig að skýrt sé hvað í þeim felst og að þeir sem eftir þeim starfa viti nákvæmlega hvernig um hnúta er búið.

Mér þóttu athugasemdir hv. þingmanns við IX.–XIV. kafla ekki mjög alvarlegar í sjálfu sér miðað við orðalagið í greinargerðinni og hvernig það er lagt upp. Í raun og veru er ekki um neinar meiri háttar breytingar að ræða í frumvarpinu, hvorki efnislegar né annars konar, að því er þennan kafla varðar.

Nákvæmlega er skýrt í greinargerðinni að orðalagi sé breytt og í sumu sem hv. þingmaður vék að. Í 72. gr. segir, með leyfi forseta:

„Fyrri málsgrein greinarinnar er samhljóða 82. gr. núgildandi laga. Síðari málsgreinin á sér á hinn bóginn ekki hliðstæðu þar, en með henni er ráðgert að lögregla hlutist að eigin frumkvæði til um að koma munum, sem haldi hefur verið létt af, í hendur þess sem á tilkall til þeirra. Verður ekki séð að ákvæði þessarar greinar þarfnist frekari skýringa.“

Ég skil orðalagið þannig að verið sé að leggja nýjar skyldur á lögregluna til að koma til móts við þann sem hlut á að máli en ekki að þrengja að honum. Þannig er með fleira sem hv. þingmaður vék að. Ef allt er lesið og farið yfir það sem er um að ræða eru þetta skynsamleg rök fyrir málinu. Ekki er verið að nálgast viðfangsefnið með því að þrengja að neinum. Þegar litið er á eftirfararbúnað og annað eru tekin ákvæði inn í lög sem þegar eru framkvæmd af öðrum. Farið er yfir málið sem er sjálfsagt til að allsherjarnefnd geti farið yfir það og unnt sé að ræða það á Alþingi.

Menn geta að sjálfsögðu haft skiptar skoðanir á atriðunum sem hv. þingmaður gat um og rædd voru nefndinni sem hann sat í — mig minnir að hann hafi verið formaður nefndar um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir — eins og hann hefur skoðun á frumvarpinu sem er ólík þeirri sem ráðuneytið og réttarfarsnefnd hafa. Menn hafa rétt til að hafa aðrar skoðanir varðandi ákvæðin en sú ágæta nefnd hafði sem hann var formaður fyrir. Mér sýnist að þetta sé vel rökstutt í greinargerð frumvarpsins.

Þegar um er að ræða heimild til aðgerða er sagt að hún sé bundin því skilyrði að rannsókn beinist að brotum á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Einnig má túlka tilvísun til tiltekinna refsiákvæða á þann veg að með því hafi löggjafinn markað þá stefnu að veita beri lögreglu að öðru jöfnu heimild til þess að grípa til símahlerunar og þvílíkra aðgerða ef rannsókn beinist að þeim brotum sem þannig er sérstaklega vísað til í lögum.“

Í orðalaginu felst að með því að fara að tillögu nefndarinnar sem hv. þingmaður veitti formennsku sé verið gera því skóna að dómari hafi ekki svigrúm til að taka afstöðu til tilmæla lögreglu um hvort hlera eigi að síma eða ekki, að svigrúmið sé þá þrengt um of. Það stangast alveg á við málflutning hans um að frumvarpið þrengi að brotaþola. Þegar ákvæðið er skoðað er alveg augljóst að ekki er farið að tillögum hans og nefndarinnar vegna þess að talið var að með því væri þrengt of mikið að brotaþola og dómara í raun gefin fyrirmæli með lögum um að honum beri að heimila lögreglu að hlera fari hún fram á það. Ég held því að skoða þurfi málið betur en hv. þingmaður gerði og tel að hv. allsherjarnefnd hljóti að gefa sér tíma til að hlusta á öll rök í málinu. Þótt hv. þingmaður sé kannski sár yfir því að tillögur hans voru ekki teknar til greina við gerð frumvarpsins er það rökstutt hér hvers vegna það var ekki gert.

Varðandi það að ekki skuli hafa verið farið að tillögu nefndar hv. þingmanns að norskri fyrirmynd þá segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Vegna þessa má halda því fram að hér sé um að ræða falskt öryggi sem bæti litlu sem engu við aðkomu sjálfstæðs og óvilhalls dómara að málinu.“

Tillögu nefndar hv. þingmanns var ekki tekið því að talið var að hugsanlega sé með þeirri tillögu verið að binda hendur dómarans, það sé með öðrum orðum hið gagnstæða við það sem hv. þingmaður segir, að frumvarpið miði að því að auka vald hins opinbera á kostnað almennings eða brotaþola.

Ég tel, herra forseti, að hægt sé að fara yfir margar athugasemdir sem hv. þingmaður gerði og benda á að óþarfi sé að einfalda málin. Þau eru flókin og vandmeðfarin og fara verður yfir þau með opnum huga. Skoða þarf hvert atriði vel og velta fyrir sér hvað orðalag á einni grein getur leitt af sér í ljósi þeirra hagsmuna sem um er að ræða. Frumvarpið var samið af mikilli alúð og var gaumgæfilega yfirfarið, hvert orð og hugsun voru grandskoðuð. Ég tel að frumvarpið sé betur unnið en tillögur nefndarinnar sem hv. þingmaður veitti formennsku, með fullri virðingu fyrir störfum hennar, enda er margt þaðan tekið inn í frumvarpið.

Ég tek undir með hv. þingmanni að öll tillögugerð hefði getað fylgt frumvarpinu sem fylgiskjal en það var ekki gert. Nefndarálitið er aðgengilegt á vefsíðu ráðuneytisins þannig að auðvelt er að nálgast það ef menn vilja.

Í inngangi hv. þingmanns kom fram að síðan árásirnar voru gerðar á Bandaríkin, New York og Washington, í september 2001, hafi þróunin orðið sú að þrengt hafi verið að mannréttindum, þess sjáist merki hér og víða annars staðar. Því neitar enginn. Enginn á Vesturlöndum neitar því að gripið hafi verið til margvíslegra ráðstafana, sett lög og ákvæði sem mönnum hugnuðust ekki og töldu ekki þörf á áður. Að þessu leyti erum við bundin af alþjóðasamningum að verulegu leyti. Áhættumatið er ekki bundið við einstök ríki heldur er það sameiginlegt áhættumat þjóða sem koma að gerð alþjóðasamninga, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á vettvangi Evrópuráðsins.

Vegna ummæla hv. þingmanns um annað frumvarp sem var til umræðu á dögunum þar sem eru tekin upp í frumvarpið ákvæði úr samningi Evrópuráðsins gegn hryðjuverkum, benti formaður refsiréttarnefndar á í Morgunblaðsgrein í morgun að 50 ríki kæmust að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að leiða svona ákvæði í lög. Þar er áhættan metin. Sameinuðu þjóðirnar mátu áhættuna eftir árásirnar 2001. Ef hv. þingmaður hefði setið á þingi veturinn 2001–2002 eða 2002–2003 hefðu honum örugglega blöskrað þau fyrirmæli sem komu frá Sameinuðu þjóðunum um nauðsyn þess að festa í lög alls konar ákvæði sem voru ekki fyrir áður. Það var sameiginlegt áhættumat þjóðanna sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum sem leiddi til þess að það var gert að alþjóðasamningum. Síðan var gengið fast eftir því við ríki að þau framfylgdu samningunum og breyttu löggjöf sinni í samræmi við það.

Lögin um meðferð sakamála eiga ekki við í þessari löggjöf þótt þau taki vissulega mið af því. Það er miklu frekar í hegningarlögunum sem við höfum innleitt fjölmörg ákvæði sem eiga rætur að rekja beint til aðildar okkar að Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu og samtökum í heiminum sem menn telja þó helstu alþjóðasamtökin til varnar mannréttindum. Segja má að íslensk stjórnvöld hafi komist að einhverju áhættumati sem leiði til þess að það sé fært í lög en rangt er að halda því fram. Ástæðan fyrir því að það var gert eru kröfur alþjóðasamfélagsins og sameiginlegt áhættumat sem þar liggur fyrir og kemur fram í alþjóðasamningum. Ég held að hv. þingmaður átti sig á því ef hann hugsar málið. Þeir sem að því standa á vegum þessara samtaka gera það ekki til að þrengja að mannréttindum heldur til að tryggja öryggi borgaranna og svara kröfum sem fram hafa komið í aðildarríkjunum um nauðsyn þess að gera ráðstafanir.

Auðvitað getum við deilt um hvaða áhrif ráðstafanirnar hafa en engu að síður sýnir það sig að tekist hefur að koma í veg fyrir hryðjuverk og um það liggja fyrir óteljandi dæmi í mörgum ríkjum. Ég ætla ekki að telja þau dæmi upp en þau er nærri okkur, t.d. í Danmörku. Í Bretlandi hefur mistekist að koma í veg fyrir hryðjuverk en það hefur líka heppnast með ótrúlega góðum hætti. Ef hv. þingmaður kynnti sér umræður í Bretlandi um ráðstafanir sem gerðar eru þar og hvers vegna þær eru gerðar, með hliðsjón af greiningu lögreglunnar á áhættunni sem Bretar standa frammi fyrir, er ég viss um að hann mundi vera þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að hafa heimildir fyrir lögreglu til þess að gera slíkar ráðstafanir.

Í Bretlandi deila menn um hvort lögregla eigi að hafa heimild til að halda mönnum í gæsluvarðhaldi í 28 daga eða 90 daga án þess að draga þá fyrir dóm. Það er ekki verið að tala um neitt slíkt hér, við höfum aldrei látið okkur detta það í hug. Í frumvarpinu er þvert á móti réttur gæsluvarðhaldsfanga skilgreindur betur. Í Bretlandi er spurningin: Eru 28 dagar nóg? Lögreglan segir að svo sé ekki og þá er talað um 90 daga. Það er mikið deilumál í breska þinginu. Við flytjum ekki slík frumvörp hér en það sýnir bara að í öðrum löndum snúast umræðurnar um miklu harkalegri aðgerðir en við hugsum okkur. Við viljum framkvæma lágmarksaðgerðir í samræmi við alþjóðlegt hættumat sem liggur að baki slíkum alþjóðasamningum. Við höfum sérstakar aðstæður hér á landi sem lúta að skipulagðri glæpastarfsemi eins og við heyrum og fréttum af. Það er nauðsynlegt að efla getu lögreglunnar til rannsókna í fíkniefnamálum, kynferðisbrotamálum og öðrum slíkum málaflokkum og ég tel að frumvarpið geri lögreglunni auðveldara að glíma við þau mál. Ég legg eindregið til að það fari til hv. allsherjarnefndar og að hún gefi sér tíma til að skoða það og kalla fyrir sig sérfróða menn sem geta upplýst hana um málið. Auk þess þarf að fara yfir textann í frumvarpinu til að átta sig á að með því er ekki vegið að mannréttindum heldur er markmiðið að tryggja öryggi borgaranna.