135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð sakamála.

233. mál
[20:53]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað svo að í stuttri 30 mínútna ræðu um jafnviðamikið mál og hér liggur fyrir þingi eins og ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra getur þó verið sammála mér um að sé rétt, að þetta sé viðamikið mál, þá getur maður ekki gert málum líkt því öll skil. Ég átti reyndar allmikið eftir þegar ræðutíma mínum lauk. Ég verð að leiðrétta hæstv. dómsmálaráðherra að því leyti að þessi nefnd um óhefðbundnar rannsóknir skilaði skýrslu og þó að vegur minn hafi verið allnokkur í nefndinni þá var ég ekki formaður hennar. (Dómsmrh.: Það er náttúrlega skaði.) Hún vann, að ég hygg — og ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir það — ég held að hún hafi unnið gott starf og þar var akkúrat þessi vandi sem við erum að glíma við í þessum efnum, þ.e. þetta samspil mannréttinda og hagsmuna lögreglu.

Ég nefndi dæmi um það, og tel það vera í þvingunarúrræðisköflunum, að það er verið að rýmka fyrir heimildum lögreglu og þar með er gengið inn á mannréttindasviðið, þrengt þar að. Það sagði enginn að verið væri að henda burtu mannréttindunum. Ég var að segja að það hafi verið að rýmka heimildir lögreglu og takmarka mannréttindi.

Að því er varðar hryðjuverkin og hryðjuverkalögin og það sem þar spratt af og þörf hinna 50 ríkja þá hygg ég að við Íslendingar þyrftum sérstaklega að skoða þörfina innan lands. Við höfum sem betur fer engin dæmi hér um hryðjuverk. Einu hryðjuverkin sem ég þekki og eru dæmi um eru það sem ég kalla hryðjuverk gagnvart konum sem er illa sinnt, þ.e. hið kynbundna ofbeldi.