135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð sakamála.

233. mál
[20:55]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég gerði veg hans meiri í nefndinni en efni stóðu til en álit nefndarinnar er prýðilegt og ég hef notað það og farið yfir það, meðal annars á fundum með lögreglunni. Ég tel að í þessu áliti nefndarinnar og þeim tillögum sem síðan er tekin hliðsjón af við gerð þessa frumvarps sé tekið á öllum álitaefnum sem menn þurfa að líta til þegar fjallað er um svokallaðar óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglunnar sem er náttúrlega mjög viðkvæmt svið. Það er líka verið að fara inn á þau svið. Evrópuráðið hefur farið mjög nákvæmlega ofan í þann málaflokk og gefið út bækur um það þar sem borin eru saman ákvæði að þessu leyti í ólíkum löndum og menn hafa kynnt sér það hér á landi og farið yfir það. Það liggur allt fyrir og ég er viss um að nefndin hefur gert það líka. En ég held að þróunin frá 1999 þegar nefndin skilaði áliti, atburðirnir 2001 og það sem hefur gerst síðan og þær ráðstafanir sem þjóðir hafa talið sig þurfa að gera í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga sinna, endurspeglist í senn í því hvernig tillögur nefndarinnar eru útfærðar í þessu frumvarpi. Mikið svigrúm er gefið af hálfu nefndarinnar og í frumvarpinu líka til ríkissaksóknara. En viðleitnin við frumvarpssmíðina var sú að færa það frekar inn í lagatextann sem áður hefur að nokkru leyti verið í höndum ríkissaksóknara þannig að hægt sé að ræða þetta hér á þingi og fara yfir það og hv. allsherjarnefnd getur gert það mun betur en við í þingsalnum.

Ég held að það sé mjög farsælt að hv. þingmaður situr í allsherjarnefnd með sína reynslu bæði af störfum í þessari nefnd og einnig af lögmannsstörfum til að koma þeim sjónarmiðum á framfæri. Ég held að það tryggi betri málsmeðferð í nefndinni og að öll sjónarmið komi fram.