135. löggjafarþing — 28. fundur,  20. nóv. 2007.

meðferð sakamála.

233. mál
[20:57]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. dómsmálaráðherra að þetta er afar vandmeðfarið svið, óhefðbundnar rannsóknaraðferðir. Þær eru afar vandmeðfarnar. Þar takast á hagsmunir sem snúa að, eins og má alveg orðað það, öryggi borgaranna, öryggiskennd borgaranna og svo mannréttindum og einstaklingsfrelsi, öllu slíku. Þetta er eitt vandasamasta svið lögfræðinnar, þegar þetta tekst á nema þá helst þegar mannréttindi takast á innbyrðis.

Grundvallarhugsun mín í þessu máli er sú að túlka vafann mannréttindum í hag, ganga ekki lengra. Það er mín grundvallarskoðun líka að eftir hörmungaratburðina í Bandaríkjunum eða New York 11. september 2001 hafi heimurinn misst sig svolítið. Ég fylgdist nokkuð með umfjöllun í Bandaríkjunum á þeim tíma og það voru ótrúlegar tilfinningarík og snörp viðbrögð sem þar komu fram og eiginlega með ólíkindum og þegar menn horfa til baka og skoða viðbrögðin þar sem síðan leiddu út í þessa þróun, hryðjuverkalöggjöf og allt annað slíkt, þá gat maður allt eins hugsað sér að hryðjuverkamennirnir hafi unnið ákveðinn sigur í sinni baráttu. Var það ekki tilgangur þeirra að reyna að grafa undan því lýðræði og því skipulagi sem við viljum búa við, hinu vestræna lýðræði og því skipulagi sem við búum við? Hefur það gerst að einhverju leyti að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt þegar við þurfum að skerða réttindi okkar eigin þegna?