135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:02]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það eru ýmsir dagar í almanakinu sem einhvern tíma voru helgaðir dýrlingum og voru messudagar en vandamál dagsins eru meira hér megin grafar. Þó er það kannski vafamál með þann dag sem nú er, hvorum megin hann er, hvorum megin lífs og dauða, því að það vandamál sem er helgað þessum degi er grafalvarlegt, dauðans alvara. Í dag er forvarnadagur í öllum skólum landsins og ástæða til að Alþingi hugleiði þetta mál líka. Mig langar til að víkja að þessu í spurningum hér til hæstv. heilbrigðisráðherra.

Það var mjög athyglisvert viðtal við herra forseta Íslands í Ríkisútvarpinu í morgun þar sem hann vék að mannfalli af völdum fíkniefna og hvort feimni okkar í þessum efnum væri kannski fullmikil. Okkur bæri e.t.v. að setja upp skilti sambærilegt því skilti sem er með tölum um mannfall af völdum umferðarslysa þar sem nú eru 13 fallnir á þessu ári. Við vitum ekki hversu margir eru fallnir af völdum fíkniefnanna en fáum í hverri viku fréttir af fólki sem bíður bana af þessum ömurlega vágesti.

Það er vissulega hægt að fagna því sem vel er gert í stefnumótun ríkisstjórnarinnar varðandi aukið fé til forvarnamála en það er líka áhyggjuefni að í hvunndeginum eru vandamálin samt mikil. Við höfum fréttir um það að Vímulaus æska sem hefur verið með mjög gott starf í miðbænum er núna á hrakhólum og húsnæðislaus og ríkisvaldið hefur ekki séð ástæðu til að koma þar inn í.

Það er alkunna í þessum geira að því fyrr sem ungmenni smakkar áfengi á lífsleiðinni því meiri líkur eru á að það verði fíkniefnavandanum að bráð og mér er mikið áhyggjuefni að nú skuli vera, og meira að segja með blessan hæstv. heilbrigðisráðherra, uppi um það hugmyndir að fara að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum. (Forseti hringir.) Það eru ekki góð skilaboð um þá hugarfarsbreytingu sem hér þarf að eiga sér stað.