135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og hér hefur verið upplýst bíður umræða utan dagskrár um þessi mál, bíður þess að forsætisráðherra geti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar svarað fyrir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Við ræðum þetta væntanlega þá meira á dýptina þegar sú umræða fer fram hér eftir helgi og þar á meðal hv. málshefjandi sem örugglega verður með okkur í því.

Að sjálfsögðu er mikið starf unnið á þessu sviði á vegum skóla og samtaka og einnig er ýmislegt reynt til þess að virkja heimilin með í forvarnastarf, umræðu og fræðslu um þessi mál. Það er þó alveg ljóst að stjórnvöld gætu staðið sig miklu betur í því að búa þeim sem við þetta starfa sómasamlegt starfsumhverfi og leggja einfaldlega meiri fjármuni til virkrar forvarnastefnu, forvarnaaðgerða.

Ég hef t.d. flutt mörg undanfarin þing, eða a.m.k. af og til, frumvarp um að sá hluti áfengisgjalds sem rennur til Forvarnasjóðs verði stórhækkaður. Það er alveg hlægilega lítið af tekjum af áfengisgjaldi sem renna til Forvarnasjóðs. Með auknum fjármunum þar mætti gera miklu meira, styrkja t.d. starf ýmissa félagasamtaka og aðila sem vinna það sem kalla má félagslegt forvarnastarf. Að sjálfsögðu verða forvarnirnar ekki slitnar frá heildarstefnunni og heildarsamhengi þessara mála. Það vil ég segja, af því að hér var hæstv. heilbrigðisráðherra til svara, að ekki mun það létta okkur róðurinn ef við slökum á þeirri aðhaldssömu áfengis- og forvarnastefnu sem þó hefur verið við lýði í landinu. Vonandi snýst hæstv. heilbrigðisráðherra hugur og hann hverfur frá hugmyndum sínum um að styðja frumvarp um brennivín í búðir þvert á ráðleggingar undirstofnana sinna.