135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:15]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég efast hvorki um góðan vilja hæstv. heilbrigðisráðherra, og þakka honum það sem hann hefur þegar gert á stuttum ferli sem ráðherra, né um góðan vilja ríkisstjórnarinnar og þingheims alls.

En það er nú svo að það er ekkert til sem heitir unglingavandamál. Unglingavandamál er afleiðing af gjörðum okkar sem erum fullorðin. Ungur nemur, gamall temur, var sagt. Það á við um góða siði og lífsvenjur. Það á líka við um lestina og hinar brotnu lífsvenjur.

Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði: Við höfum náð árangri. Hann rakti það hér og það er rétt. Baráttan hefur skilað sér og við höfum séð árangur sem vekur athygli. Við þurfum að gera betur. Ég tek undir það hér að við megum engin þau skref stíga í íslensku samfélagi sem skapa meiri hættu. Þingið má ekki leggja til að léttvín og bjór fari inn í matvöruverslanir, það þýðir að allt áfengi fer inn í matvöruverslanir. Það er ný hætta. Það er nýr voði.

Hæstv. forseti. Á þessum degi hugsum við til foreldra sem hafa misst ástvini í hendur vímuefnadjöfulsins. Það þýðir ekki að gráta Björn bónda, sagði kvenskörungurinn forðum. Nú ber að safna liði, þétta raðirnar, leggja á ráðin, með fjölskyldum, skólum, félagasamtökum, íþróttahreyfingunni, æskulýðs- og ungmennafélagshreyfingunni, um það hvernig við byrgjum brunninn og bægjum óreglu, eiturlyfjum og áfengi, frá glæsilegri æsku landsins. Það er skylda okkar allra að standa saman og vinna að því stóra verkefni. Það (Forseti hringir.) snýr að framtíð Íslands.