135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:20]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er ágætlega við hæfi að taka þetta mál upp í tilefni forvarnardagsins. Þótt umræðan verði stutt í dag vitum við að í næstu viku höfum við tækifæri til að ræða þetta mál betur í komandi utandagskrárumræðu.

Nú eru börn alveg upp í 9. bekk að huga að þeirri ógn sem áfengis- og vímuefnaneysla hefur í för með sér. Það verður stöðugt mikilvægara að renna styrkari stoðum undir forvarnastarf í landinu. Í því efni þarf að kalla sem flesta aðila í þjóðfélaginu að borði, börn, foreldra, menntastofnanir, ríkisvaldið og ekki síst atvinnulífið.

Við finnum að fyrirtæki í landinu styðja í vaxandi mæli við forvarnastarf, bæði einstök verkefni á því sviði og einnig annars konar verkefni, t.d. á sviði listsköpunar barna og íþróttastarfsemi sem hefur án efa mikið forvarnagildi. Ég held að alls ekki megi gera lítið úr þætti listsköpunar í uppeldi barns.

Vinkonurnar Ragnhildur Ásta Valsdóttir og Sunneva Sverrisdóttir, sem rætt var við í Morgunblaðinu í dag, telja afar mikilvægt að ekki sé fjallað um algert áfengis- og tóbaksneyslubann. Sunneva Sverrisdóttir segir, með leyfi forseta:

„Það er ekkert verið að tala um að það eigi aldrei að drekka áfengi eða aldrei að reykja. Það er bara verið að benda okkur á að hvert ár sem við bíðum með að drekka áfengi skiptir máli og minnkar líkurnar á því að neyslan leiði út í eitthvað meira.“

Það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að horfa sérstaklega á þann hóp ungmenna sem er að ljúka grunnskóla, hvort sem þau halda áfram skólagöngu eða fara út á vinnumarkaðinn. Þetta er viðkvæmur aldur. Grunnskólinn er ákveðinn hjúpur fyrir börnin og margt nýtt tekur við að honum loknum. Ég held því að við þurfum að huga sérstaklega að forvarnastarfi fyrir þann hóp sem er á bilinu 16 til 20 ára.

Hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra stigu ákveðin skref í þessa átt þegar þau settu af stað verkefni um heilsueflingu (Forseti hringir.) og forvarnir í framhaldsskólum. Þar var sleginn ákveðinn tónn í stefnumörkun til lengri tíma og munum við leggja okkur fram um að vanda til verka.