135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:25]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur orðið. Mér þótti reyndar leitt að vera sakaður um ódrengskap að hafa vakið máls á þessu. Ég vil taka fram að mér var ekki kunnugt um þá umræðu sem vinstri grænir höfðu hugsað sér í næstu viku og get því ekki tekið þá ásökun á mig. Ég vil þó vekja athygli á því að vinstri grænir eru meðal þeirra sem oft vekja máls á þörfum málum og ekki er fundið að því með viðlíka hætti.

Ég vil taka undir flest af því sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði. Við skulum þó varast að líta á það sem sérstakan árangur þó að Íslendingar geti sagt að þeir standi í fremstu röð. Við þurfum að hafa metnaðinn mjög mikinn í þessum málum því að vandamálið er ekki bara stórt, það er í rauninni algjörlega óásættanlegt.

Við erum að tala um ungmenni, oft okkar besta fólk, bráðgreind og vel gerð ungmenni, og ungmenni úr allra handa aðstæðum, sem falla í valinn langt um aldur fram. Þótt þau séu hlutfallslega færri hér en í einhverjum öðrum löndum getum við ekki talið að ástandið sé þar með ásættanlegt.

Við skulum líka hafa hugfast að fórnarlömb í þessu stríði eru gríðarlega mörg. Þau eru miklu fleiri en neytendurnir. Fórnarlömbin eru ekki síður aðstandendur, heilu fjölskyldurnar og heilu vinahóparnir, og er mjög mikilvægt að þar sé vel unnið. Ég tek undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, ábyrgðin er okkar allra í þessum efnum. Við þurfum virkilega að beina sjónum að hugarfarsbreytingu og þá út frá (Forseti hringir.) fjölskyldunum. Ég tel líka mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra endurskoði afstöðu sína til þess áfengismálafrumvarps sem nú liggur fyrir.