135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:27]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi stutta umræða, sem eðli málsins samkvæmt var stutt því að ræðutíminn var stuttur, var að stærstum hluta málefnaleg og góð. Ég held að þetta mál sé þess eðlis að við þingmenn getum verið sammála um hlutina og getum líka vonandi sammælst um að ræða málin á þeim forsendum.

Hv. þm. Bjarni Harðarson skildi orð mín á þann veg að ég væri að tala um að árangurinn væri ásættanlegur og við gætum slakað á. Það sagði ég aldrei. Ég lagði ekki út af því með neinum hætti, virðulegi forseti. Ég sagði þvert á móti að um væri að ræða eilífðarmál og við mættum aldrei slaka á.

Ég tel hins vegar eðlilegt að skoða það sem hefur gengið vel hjá okkur og hvernig við getum heimfært það yfir á önnur svið. Þess vegna vorum við að taka þessa hluti í gegn í grunnskólunum, setjast yfir það og skoða hvernig við getum unnið í framhaldsskólunum. Ef við höfum náð árangri — og hann er til staðar, hann er vísindalega sannaður, ef þannig má að orði komast — skulum við heimfæra það yfir á fleiri svið.

Ég held að við getum verið sammála um þetta. Mjög gott innlegg kom frá hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Ólöfu Nordal og fleirum. Þar var komið inn á það grundvallaratriði að við berum ábyrgð. Fjölskyldan ber ábyrgð og við getum ekki vikið okkur undan því. Jafneinfaldir hlutir og það að eiga eins margar samverustundir með börnum okkar og ungmennum og við getum skila árangri. Það skilar árangri að börn og ungmenni séu í heilbrigðum tómstundum og eins og hér kom fram munar um hvert ár sem unga fólkið drekkur ekki áfengi.

Menn hafa rætt í þessu sambandi, og finnst einhver ávinningur af því í pólitískum hráskinnaleik, ákveðið frumvarp sem ég hef lýst stuðningi við. Það verður að koma fram, af því að menn fara þessa leið, (Forseti hringir.) að það voru framsóknarmenn sem fóru með áfengi í búðirnar. (Forseti hringir.) Áfengi er löngu farið í búðirnar og vinstri grænir hafa farið fram á (Forseti hringir.) að ríkið beiti sér fyrir því að áfengi verði selt á fleiri stöðum um landið (Forseti hringir.) en ég hef gert.