135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér hefur verið sagt og hæstv. forseti hefur sagt sjálfur, honum er nokkur vandi á höndum varðandi stjórn þingsins undir þessum lið. Eins og hv. þingmaður sem ræddi á undan mér, Siv Friðleifsdóttir, sagði hefur verið reynt að gera þennan lið um störf þingsins sem fjallað er um sérstaklega í þingskapalögum að einhvers konar vettvangi dagsins en við höfum séð aftur og aftur að kannski er ekki nógu góður bragur á því. Ein vinnuregla sem hæstv. forsetar starfa eftir er sú að ræðumönnum skal gefið orðið í þeirri röð sem þeir biðja um það.

Nú hefur hæstv. forseti stjórnað þessari umræðu eins og ígildi utandagskrárumræðu með því að hæstv. forseti gaf hv. málshefjanda orðið á nýjan leik í lok umræðunnar þegar reyndar var liðinn talsvert lengri tími en gert er ráð fyrir í þingskapalögum í þennan lið. Hæstv. forseti gerði annað, hann gaf síðan ráðherranum orðið á eftir síðari ræðu hv. málshefjanda. Þetta segir okkur sem sitjum í þingsal að hæstv. forseti vilji búa til úr þessum lið, um störf þingsins, hálfgildings eða fullgildings utandagskrárumræðu nema bara með pínulítið öðru sniði.

Hæstv. forseti hafði orð á því fyrr á fundinum að það væri þörf á því að fara að breyta þingskapalögum. Við erum að ræða um breytingar á þingskapalögum og þá vil ég bara að þau skilaboð komist núna héðan úr þessum ræðustóli að skoðun mín er sú að þessi knappi liður í upphafi hvers dags eigi að fjalla um störf þingsins. Hins vegar eigi hæstv. forseti að koma á umræðum utan dagskrár eins ört og hv. þingmenn biðja um þær. Biðji þingmaður um umræðu utan dagskrár eigi hæstv. forseti að kalla viðkomandi ráðherra í salinn eins fljótt og viðkomandi ráðherra getur komið í salinn og það sé þá háð umræða í hálftíma eða hversu langan tíma sem um semst um viðkomandi mál. Þó að við brjótum upp dagskrána og rjúfum hana með utandagskrárumræðum einu sinni á dag eða tvisvar á dag eða þrisvar á dag hleypir það því fjöri í þingið sem við viljum hafa hérna. Ég brýni hæstv. forseta í þessum efnum, að láta umræður utan dagskrár vera umræður utan dagskrár í föstu formi eins oft og þurfa þykir, eins oft og þingmönnum þykir þurfa, og setja þennan lið um störf þingsins aftur í það horf sem hann var, sem sagt liðinn um störf þingsins.