135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl.

81. mál
[12:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsins hefur síðustu tvö til þrjú árin eða svo rannsakað leynifangelsi eða leynda geymslustaði bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Evrópu og ólöglega flutninga sama aðila á föngum landa og heimsálfa á milli. Í annarri skýrslu nefndarinnar frá því í vor sem unnin var undir forustu svissneska þingmannsins Dicks Martys er það sagt byggt á staðreyndum, þ.e. á enskunni „factually established“, að slíkir leynigeymslustaðir og slíkir ólöglegir fangaflutningar hafi farið fram og að með þessu hafi átt sér stað gróf alvarleg mannréttindabrot, fólki hafi verið rænt á götum úti, það flutt á laun til landa þar sem ómanneskjuleg meðferð og pyntingar eru leyfðar og fólk jafnvel horfið þannig af yfirborði jarðar missirum eða árum saman án þess að aðstandendur eða aðrir hefðu hugmynd um hvar það væri. Þetta hefur átt sér stað án efa bæði gagnvart fólki sem mögulega kann að hafa brotið af sér eða haft slíkt í hyggju, en sannanlega hefur líka alsaklaust fólk orðið fyrir þessu. Má þar nefna að kanadískur rannsóknardómari hefur kveðið upp úr um það að kanadískur ríkisborgari sem var rænt í New York og fluttur til Sýrlands til pyntinga hafi verið alsaklaus og engin ástæða til að ætla að hann hafi brotið neitt af sér, enda virtist þar hafa verið farið mannavillt.

Um þessar aðgerðir gilti viðamikil áætlun Bandaríkjastjórnar. Allt saman fór leynt samkvæmt trúnaðarreglum NATO undir yfirskini þjóðaröryggis. Það er kunnara en frá þurfi að segja að fangaflugvélar hafa ýmist lent eða flogið um íslenska lofthelgi í hundruð skipta þannig að Ísland tengist þessum atburðum bæði sem NATO-ríki og sem land sem varð fyrir barðinu á þessari starfsemi.

Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra:

1. Hver eru tengsl ákvarðana NATO-fundarins 4. október 2001 við þessar aðgerðir Bandaríkjamanna? Ég vek athygli á orðalaginu „tengsl ákvarðana NATO-fundarins og aðgerða Bandaríkjamanna“ því að því er ekki haldið fram í skýrslunni að fundurinn sem slíkur hafi heimilað aðgerðirnar eða fjallað um þær sérstaklega, heldur hafi Bandaríkjamenn túlkað það sem þar var ákveðið sér í hag og til þess að auka olnbogarými sitt.

2. Hyggst ráðherra gera Alþingi grein fyrir málinu og gera opinberar allar upplýsingar?

3. Hafa íslensk stjórnvöld hugleitt að fylgja fordæmi Kanada og Bosníu-Hersegóvínu sem hafa viðurkennt ábyrgð sína í málinu og jafnvel greitt þolendum bætur?

4. Hvernig hefur utanríkisráðuneytið hingað til brugðist við skýrslum laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um málið og viðeigandi ályktunum?