135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

tengsl NATO við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar o.fl.

81. mál
[12:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr mig fjögurra spurninga varðandi meint fangaflug og pyntingar á föngum.

Í fyrstu spurningu er spurt um tengsl ákvarðana NATO-fundarins í október 2001 við fangaflug og leynifangelsi bandarísku leyniþjónustunnar.

Ekkert bendir til að um nein tengsl sé að ræða milli varnaráætlunar NATO gegn hryðjuverkum og meintra fangafluga eða leynifangelsa bandarísku leyniþjónustunnar. Aðalframkvæmdastjóri NATO gaf greinargóða lýsingu á þessari varnaráætlun í yfirlýsingu til fjölmiðla í lok fundarins 4. október 2001 sem birtist þá á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins. Ég hef raunar líka afhent fulltrúum í utanríkismálanefnd afrit af fundargerð frá þessum fundi þannig að þeir hafa séð hvað þar var ákveðið.

Varnaráætlunin kveður á um almenna heimild til yfirflugs sem háð yrði tvíhliða samkomulagi við hvert aðildarríki fyrir sig, fyrir loftför Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja á grundvelli þeirra innlendu reglna sem gilda í hverju aðildarríki fyrir herflug sem tengist aðgerðum gegn hryðjuverkum. Ekki er með nokkru móti hægt að túlka ákvæðið svo að það veiti heimild til flugs með fanga sem eiga á hættu að verða pyntaðir eða settir í fangelsi án dóms og laga. Íslensk stjórnvöld mundu aldrei samþykkja slíkt og hafa skuldbundið sig samkvæmt alþjóðasamningum til að koma í veg fyrir slík mannréttindabrot innan íslenskrar lögsögu.

Í öðru lagi er spurt hvort ég hyggist gera Alþingi grein fyrir málinu og gera opinberar allar upplýsingar sem utanríkisráðuneytið hafi undir höndum um málið, þar með talið þær sem snúa að efni og ákvörðunum NATO-fundarins 4. október 2001. Það er ekki á mínu valdi að gera opinberar trúnaðarupplýsingar frá NATO en ég hef gert það sem í mínu valdi stendur til að utanríkismálanefnd sem er auðvitað eftirlitsnefnd þingsins með þessum málum fái þessi gögn, og þau hefur hún þegar fengið.

Þá setti ég niður starfshóp á vegum utanríkisráðuneytisins sem var falið að takast á hendur skoðun á staðhæfingum um að loftför sem liggja undir grun um að hafa verið notuð í meintu ólögmætu fangaflugi hafi lent á Keflavíkurflugvelli og/eða Reykjavíkurflugvelli. Skýrslan hefur þegar verið gerð opinber og henni dreift m.a. til utanríkismálanefndar. Í þeirri vinnu var ekki ætlunin að staðfesta eða kanna frekar hvort um ólögmæta fangaflutninga um íslenskt yfirráðasvæði hafi verið að ræða, einfaldlega vegna þess að ef ólögmætur flutningur fanga hefur átt sér stað er vart mögulegt að sannreyna slíkt eftir á. Hins vegar var farið yfir flugnúmeralista og þeir staðfesta að loftför sem sökuð hafa verið um þátttöku í meintu ólögmætu fangaflugi leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa haft viðkomu á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli auk þess að hafa farið um íslenska lofthelgi á því tímabili sem könnunin náði til, frá september 2001 til loka júlí 2007.

Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um ferðir loftfara um íslenska lofthelgi, Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll, með fanga eða meinta hryðjuverkamenn sem hvorki njóta verndar né meðhöndlunar samkvæmt alþjóðasáttmálum. Pyntingar eru skilyrðislaust og undantekningarlaust bannaðar samkvæmt alþjóðasamningum. Flutningar á föngum um lofthelgi Íslands sem ekki samrýmast alþjóðalögum væru í algjörri óþökk íslenskra stjórnvalda og með öllu óviðunandi.

Í þriðja lagi er ég spurð hvort íslensk stjórnvöld hafi hugleitt að fylgja fordæmi Kanada og Bosníu-Hersegóvínu og viðurkenna ábyrgð sína í málinu. Ég lít svo á að þeirri spurningu hafi verið svarað hér á undan. Við tókum þátt í afgreiðslunni hjá NATO og þar er engin heimild veitt til að stunda ólögmætt fangaflug. Ég árétta það sem ég sagði, pyntingar eru mjög alvarlegur glæpur og ég hef því í hyggju að láta skoða með hvaða hætti er hægt að auka eftirlit með loftförum sem hér millilenda, horfa sem sagt til framtíðar í þessu máli. Utanríkisráðuneytið hefur þegar tekið frumkvæði að því að þetta mál verði skoðað af hlutaðeigandi ráðuneytum og farið inn í þær vélar sem bera þessi flugnúmer þegar þær lenda hér.

Þá er spurt hvernig utanríkisráðuneytið hafi hingað til brugðist við skýrslum laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um málið.

Utanríkisráðuneytið hefur svarað með fullnægjandi hætti öllum beiðnum um upplýsingar, m.a. beiðni frá framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til aðildarríkjanna dags. 21. nóvember 2005. Formaður þingmannasendinefndar Íslands hefur einnig svarað erindi laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins með bréfi dags. 10. október 2007. Í ljósi niðurstaðna skýrslugjafar laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins ákvað ég að stofna starfshóp í ráðuneytinu eins og ég hef þegar drepið á til að fara yfir þessi mál.