135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

lán Íbúðalánasjóðs.

212. mál
[13:04]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greinargóð svör. Það er alveg ljóst að í því ástandi sem við búum við núna, þar sem verðbólgumælingin síðasta sýndi yfir 5% verðbólgu og þar af drýgstan hluta vegna hækkunar húsnæðisverðs og þar sem greiningardeildir eru að spá desembermælingunni nærri 6% verðbólgu, þá væri það óðs manns æði að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs eins og fyrri hluti fyrirspurnar hv. fyrirspyrjanda hljóðaði.

Hvað svo varðar sérstakar aðstæður á landsbyggðinni er það annað mál en þar kemur náttúrlega til að þar er brunabótamatsviðmiðunin ekki að skekkja lánshlutfall eins og hún gerir á höfuðborgarsvæðinu.

Aðalatriðið er að aðgerðir hins opinbera í húsnæðismálum verði ekki til að auka á verðþenslu á húsnæðismarkaði til tjóns fyrir alla í samfélaginu.