135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

lán Íbúðalánasjóðs.

212. mál
[13:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir það að ég hugsa að hæstv. ráðherra væri dálítið hollt að rifja upp ræður sínar frá því á síðasta sumri, sumrinu 2006, þegar ákveðið var að lækka lánshlutfallið niður í 80%.

Ég vil vegna orða ráðherrans upplýsa að í svari Íbúðalánasjóðs til mín, dagsett 18. júlí í sumar um þessa breytingu ráðherrans, segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í ljós kemur að veðsetningarhlutföll, 90% á höfuðborgarsvæðinu, eru í algjöru lágmarki meðan hún er mikið nýtt á landsbyggðinni eins og oft hefur komið fram í umræðunni, ekki síst af hendi Íbúðalánasjóðs.“

Þetta stangast á við það sem ráðherrann var að bera hér upp á Íbúðalánasjóð áðan og ég vænti þess að ráðherrann íhugi betur þau ummæli sem hún lét falla. Tölurnar liggja fyrir og ég get sent ráðherranum afrit af þeim ef hann hefur ekki fengið þær frá sjóðnum.

Það sem er kjarni málsins, virðulegi forseti, og það get ég tekið undir hjá hæstv. ráðherra og hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem ævinlega þakkar ráðherrum flokksins fyrir svörin en aldrei fyrirspyrjendunum fyrir að bera spurningarnar fram (Iðnrh.: Hann kann mannasiði.) — ja, hann veit fyrir hverjum hann á að hneigja sig, (Gripið fram í: Þetta er vitleysa ...) virðulegi forseti — er að hátt verð á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur ýtt undir mikla verðbólgu. Það þekkjum við og um það er ekki deilt. Hins vegar er vitað að verðbólgan hefur ekki verið á landsbyggðinni og það er vitað að aðgerðirnar sem ráðherrann greip til höfðu engin áhrif á að draga úr verðbólgunni á höfuðborgarsvæðinu. Í því er tvískinnungur ráðherrans fólginn og ríkisstjórnarinnar að segjast grípa til aðgerða til að draga úr verðbólgu — sem menn eru sammála um að eigi að gera — en hafa aðgerðirnar þannig að þær bitna bara á landsbyggðinni. Það er ekki hreyft við hámarkinu og það er ekki hreyft við öðrum takmörkunum sem í lögum og reglugerðum eru til þess að draga úr lánsfjárstreymi inn á höfuðborgarsvæðið.

Í þessu felst alvarlegur tvískinnungur, virðulegi forseti, og ég held að hæstv. ráðherra ætti að íhuga það alvarlega (Forseti hringir.) á hvaða leið hann er.