135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

lán Íbúðalánasjóðs.

212. mál
[13:09]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég skal ekki gera lítið úr stöðunni á húsnæðismarkaðnum á landsbyggðinni. En ég held að hv. þingmaður ætti líka að huga að stöðunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem fasteignaverð hefur rokið upp úr öllu valdi og hækkað um 140% frá árinu 2000. Þar er vandamálið mjög mikið (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður veit, ekki síst fyrir fyrstuíbúðarkaupendur og hjá þeim sem bíða eftir félagslegu húsnæði. Það er einkum hér á höfuðborgarsvæðinu sem sá vandi er. (Gripið fram í: Þú tekur ekkert …)

Herra forseti. Ef ég má nýta svartíma minn hér þá sagði ég og hef sagt margsinnis að það er nefnd á mínum vegum að skoða þessi vandamál. Hún er líka að skoða stöðuna á landsbyggðinni í því samhengi. Það var svar mitt. Ég hef hins vegar ekki niðurstöðuna vegna þess að hún liggur ekki enn fyrir og við skulum vona að það sé þá með einhverjum hætti tekið á málinu að því er varðar landsbyggðina.

Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af höfuðborgarsvæðinu. Af því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spurði um stefnu ríkisstjórnarinnar þá ætti hv. þingmaður líka að hugleiða hvort til séu einhver önnur orð yfir það en ég viðhafði hér í gær, að húsnæðisstefnan, sem fyrst og fremst síðasta ríkisstjórn ber ábyrgð á, er komin í þrot. Það er ekki hægt að segja annað en það þegar þrjú þúsund manns eru hér á biðlista eftir leiguíbúðum og leiguverð er um 100–150 þús. kr. fyrir litla íbúð. Það er ekki hægt að segja annað en að húsnæðisstefnan sé komin í þrot þegar fyrstuíbúðarkaupendur þurfa að borga 4–5 milljónir í útborgun fyrir litla íbúð.

Það er þetta vandamál sem ríkisstjórnin glímir við. Það er þetta vandamál (Gripið fram í.) sem við erum að reyna að taka á og ég vona að við getum það og ég vona að það sé samstaða um það á þingi að það þurfi fyrst og fremst að beina sjónum sínum að því að endurreisa húsnæðiskerfið að því er varðar þessa hópa sem hafa (Forseti hringir.) verið skildir eftir af hálfu síðustu ríkisstjórnar og staðan þannig að það er nánast neyðarástand hjá þessum hópum.