135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

reglur Evrópusambandsins á sviði orkumála.

201. mál
[13:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Svarið við fyrstu spurningu hv. þingmanns er já. Ráðuneytið hefur fylgst með þessu og starfsmenn ráðuneytisins hafa setið fundi vinnuhópa EFTA, sem ég held reyndar að hafi bara verið einn til þessa um þetta mál. Þar kynnti fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar þetta fyrir þessum vinnuhópi. Það er auðvitað ljóst að iðnaðarráðuneytið mun fylgjast með umfjöllun um þessar tillögur og framvindu þeirra innan stofnana Evrópusambandsins.

Eins og hv. þingmaður ugglaust veit er uppi ágreiningur meðal aðildarþjóðanna, þ.e. Frakkar og Þjóðverjar eru ósammála ýmsum öðrum þjóðum. Þetta mál er komið í það ferli sem við höfum þýtt sem sáttaferli milli ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Það er því allsendis óljóst hvað út úr því kemur. En það er alveg ljóst að ráðuneytið mun eiga samráð við íslenska hagsmunaaðila sem eiga að gæta íslenskra hagsmuna. Ég nefni t.d. að fyrirhugaður er fundur á næstunni með fulltrúum Samorku til þess að upplýsa það.

Út frá því sem hv. þingmaður sagði um yfirlýstan vilja þingsins sem hér hefur komið fram til að fylgjast vandlega með málum á fyrri stigum þá er alveg sjálfsagt, ef eftir því er óskað, að ráðuneytið láti þær upplýsingar í té um framvindu þessa máls gagnvart iðnaðarnefnd eða öðrum nefndum ef eftir því yrði óskað.

Hv. þingmaður spyr síðan hvaða áhrif þetta muni hafa hér á landi. Nú er einungis um að ræða breytingartillögur og þær í ferli og allsendis óljóst hver niðurstaðan verður. Það er hins vegar alveg ljóst að ef gildandi tilskipanir yrðu samþykktar óbreyttar þá gætu þær, eins og hv. þingmaður var að segja, gert strangari kröfur um aðskilnað flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets í okkar tilviki, frá samkeppnisþáttum.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður var í reynd að segja, að framkvæmdarstjórnin er þeirrar skoðunar að það sé heppilegast frá hennar sjónarhóli að aðskilja í ríkari mæli eign flutningskerfa frá framleiðslueiningunum. Hins vegar er rétt að það komi fram að þessar tillögur, eins og ég þekki þær, bjóða líka upp á aðra valkosti í þessum efnum. Þannig að þegar hv. þingmaður spyr mig hver áhrifin verði af þessari tilskipun þá get ég ekki svarað því á þessu stigi öðruvísi en svo að ég hef lýst að hvaða pólitísku stefnu þessar breytingartillögur hníga. Sömuleiðis þá munu áhrifin ráðast nokkuð af því hvaða leið er valin til þess að innleiða reglur tilskipunarinnar.

Síðan spyr hv. þingmaður, í ljósi reynslunnar væntanlega, hvort það komi til greina að Ísland leiti eftir undanþágu frá væntanlegum reglum. Það er alveg ljóst að ef að skoðun stjórnvalda á Íslandi leiðir það í ljós að efni þessara tilskipana geti raskað hagsmunum okkar, sem við skilgreinum sem íslenska hagsmuni, þá kemur að sjálfsögðu til greina að leita eftir undanþágu.

Eins og hv. þingmaður benti á er enn þá hægt að leita eftir undanþágum frá ýmsum ákvæðum tilskipunar þessara breytingartillagna, svo fremi sem Íslendingar geti sýnt fram á sterk rök fyrir umsókn um slíkt.