135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til, sérstaklega eftir umræðuna um húsnæðismál í þingsalnum í gær og fyrirspurnir fyrr í dag, að ræða þetta mál frekar og vekja athygli á úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar eða því aðgerðaleysi sem hún hefur kosið sér, sem ég hugsa að geti alveg eins verið skýringin.

Ríkisstjórnin ákvað, og það var eitt af hennar fyrstu verkum í sumar, að lækka lánshlutfall í Íbúðalánasjóði til að slá á þensluna á húsnæðismarkaðnum. Nú, nærri hálfu ári síðar, liggur fyrir að sú aðgerð hefur ekki haft áhrif. Verð hefur haldið áfram að hækka á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert lát virðist vera á þeirri verðhækkun. Þrátt fyrir að ríkisstjórninni sé ljóst að þetta er árangurslaus aðgerð til að ná þeim markmiðum sem sett voru, eru svör hæstv. félagsmálaráðherra, og þar með ríkisstjórnarinnar, engu að síður þau að ekki eigi að gera neitt frekar. Málið er í einhverri nefnd sem á að fjalla um það í heild sinni. Hæstv. ráðherra lýsir stöðunni þannig að það sé neyðarástand.

Stærsta neyðarástandið er ójafnvægi í efnahagsmálum. Stærsta vandamálið í efnahagsmálum er verðhækkun á íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Eina aðgerðin sem gripið hefur verið til hefur ekki áhrif vegna þess að henni var ekki ætlað að hafa áhrif. Hún lækkaði lánshlutfallið en hún lækkaði ekki hámarksfjárhæð lánsins sem er það sem hefur áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Það sýnir að ríkisstjórninni er engin alvara með þessu. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar gerir fólki einungis erfiðara fyrir að kaupa íbúðarhúsnæði úti á landi þar sem ekki eru verðhækkanir, þar sem ekki er þensla. Þar á að bíta. Þar á að skapa svigrúm til að mæta umsvifunum í efnahagslífinu, virðulegi forseti.