135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það var prýðileg ræða sem flutt var hér áðan vegna þess að hún var efnisleg. Þar var viðurkennt að vandinn væri til staðar og ræðumaður reyndi að gera sér grein fyrir því hverjar hann teldi ástæðurnar og hvað bæri að gera.

Hæstv. félagsmálaráðherra talaði í gær í utandagskrárumræðu eins og félagsmálaráðherra stjórnarandstöðunnar, eins og ábyrgðarlaus ráðherra sem bæri enga ábyrgð á stöðunni. (Gripið fram í.) Hæstv. félagsmálaráðherra kýs að vera fjarverandi í þingsalnum þegar þessi umræða fer fram. Það er að mínu viti, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) — vegna þess að ráðherra þarf að svara fyrir gerðir sínar. Ráðherra þarf að (ÁRJ: Hún vissi ekki af umræðunni.) bera ábyrgð og svara því hvað hún ætlar að gera. (ÁRJ: Lét þingmaðurinn hana vita?) Virðulegi forseti. Ráðherra er þingmaður og ber að mæta til þingfunda eins og öðrum þingmönnum. Það þarf ekkert að láta hana vita ef hv. þingmenn kjósa að taka til máls. Það er ekki orðið þannig, virðulegi forseti, að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ráði því hverjir megi tala hér og vonandi verður það aldrei svo.

Hér kom fram að ein af stærstu rótum vandans er aðgengi að lánsfé. Hvað gerði ríkisstjórnin í sumar? Jú, hún ætlaði að takmarka aðgengi að lánsfé. Hvað liggur fyrir nú sex mánuðum síðar? Fyrir liggur að það sem gert var takmarkar aðgengi að lánsfé á landsbyggðinni. Um 55% þeirra sem kaupa húsnæði á landsbyggðinni verða fyrir áhrifum af þessari aðgerð, þeir fá lægri lán en þeir ella hefðu fengið. En aðeins 6% þeirra sem kaupa húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefðu fengið 90% lán. Aðgerðin hefur ekki áhrif. Hvað ætlar ríkisstjórnin þá að gera til að takmarka aðgengi að lánsfé? Um það er spurt, virðulegi forseti, til þess að ná niður verðbólgunni.