135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er fullkomlega málefnalegt af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að taka upp mál af þessum toga í sölum Alþingis. Það er ljóst að þróun húsnæðisverðs er mikið áhyggjuefni og það er þess vegna sem hæstv. ríkisstjórn greip til þessara ráða. Við, hv. þingmaður og ég, virðumst vera sammála um að aðgengi að lánsfé hafi átt verulegan þátt í þróun mála. Hvað gera menn þá til að reyna að draga úr henni og hafa hemil á henni? Að sjálfsögðu reyna þeir að grípa til þess að draga úr þessu aðgengi.

Hv. þingmaður heldur því fram að þetta hafi komið sérstaklega niður á landsbyggðinni. Nú blasir við að það eru hugsanlega tveir hópar sem sú staða sem nú er uppi kemur mjög illa við. Það er annars vegar landsbyggðarfólk og hins vegar ungt fólk. Fram kom í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra í gær að hún hugðist sérstaklega beita kröftum sínum í að leysa þessa tvo þætti.

Ræða hv. þingmanns var málefnaleg en ekki ræða hv. þm. Guðna Ágústssonar sem kom hingað upp með skrum og yfirboð, talaði um að auðvelt væri að lækka byggingarkostnað í landinu um 30%. Ég spyr, herra forseti: Hvar voru þau ráð þegar hv. þingmaður og hans flokkur fór með völdin í félagsmálaráðuneytinu? Hv. þingmaður var ekki búinn að vera óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður í eina viku þegar hann kom upp og hellti úr öllum sínum koppum yfir þingheim og básúnaði að fram undan væri gríðarleg efnahagsleg óáran. Það var viku eftir að hann tapaði kosningum. Hverju skyldi það vera að kenna nema ákvörðun Framsóknarflokksins, sem var auðvitað harðpólitísk, tekin í andarslitrum fyrir þarsíðustu kosningar, til að reyna að kaupa sér atkvæði, um 90% lánin? Sú ákvörðun hratt af stað (Forseti hringir.) þessu gríðarlega framboði af lánsfé. Það er ákvörðun Framsóknarflokksins sem við erum nú að súpa seyðið af og bragðið er ekki gott.