135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:51]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er tilefni til að rifja það upp að Framsóknarflokkurinn fór með húsnæðismál í 12 ár. Og hafandi farið með þau í 8 ár þá háði flokkurinn einstæða kosningabaráttu þar sem hann auglýsti ófremdarástandið í málaflokknum sem hann hafði farið með og lofaði úrbótum, þar á meðal 90% lánum. Og þó að ég sé reyndar þeirrar skoðunar og sammála málshefjanda, Kristni H. Gunnarssyni, að áhrif þess sem slíks að hækka lánin í 90% séu ofmetin vegna þess að þak á lánsupphæðina hefur þau áhrif að um slík lán er yfirleitt ekki að ræða á því svæði landsins þar sem fasteignaverð er hátt og þetta hefur fyrst og fremst bitnað á landsbyggðinni, þessar breytingar þarna upp og niður, þá verður þetta auðvitað ekki slitið úr samhengi. Það var hin dæmalausa innkoma bankanna á þennan markað sem eftir á að hyggja náttúrlega reyndist mikið feigðarflan fyrir fasteignaeigendur, fyrir húsnæðismarkaðinn og fyrir bankana sjálfa sem nú eru á harðahlaupum frá því sem þeir þarna gerðu og gylliboðunum sem þeir buðu upp á í upphafi. Það voru hinir ábyrgu einkavæddu bankar sem þetta gerðu.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, er þessi umræða eiginlega að verða endurtekning á umræðu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hóf í gær nema þá var til svara hæstv. félagsmálaráðherra en nú verður okkur það happ í hendi að hæstv. iðnaðarráðherra kemur upp og svarar eða reynir að svara fyrir ríkisstjórnina.

Hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, dró upp mjög dökka mynd í gær af ástandinu. Ég held því miður að sú mynd hafi verið rétt og hæstv. ráðherra er nokkur vorkunn að nálgast málin þannig af því að hún hefur verið aðeins fáa mánuði í embætti. En hún er hæstv. félagsmálaráðherra og á henni brenna spurningarnar um hvað á að gera. Sú ábyrgð gufar ekki upp þó að verulegu leyti sé hægt að kenna fyrri ríkisstjórn um vandann og hún hafi gert mistökin og skapað það ástand sem við búum við í okkar ofvaxna stóriðjuþensluhagkerfi.