135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:00]
Hlusta

Flm. (Paul Nikolov) (Vg):

Virðulegi forseti. Innflytjendamál fá sífellt meiri athygli í fjölmiðlum, enda fjölgar innflytjendum hratt. Ísland er að breytast. Við vitum vel að atvinnuleysi er sáralítið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík hefur hegningarlagabrotum þar sem útlendingar eiga hlut að máli ekki fjölgað og í síðustu skoðanakönnun um málið kemur fram að meira en helmingur landsmanna hefur jákvætt viðhorf gagnvart því að Ísland verði fjölmenningarsamfélag.

Allt þetta eru staðreyndir þrátt fyrir að fólk hafi flust til landsins í þúsundatali. Við erum greinilega að gera margt gott, en við getum gert enn betur. Þjóð sem hefur góða samþættingarstefnu byggir upp traust og blómstrandi hagkerfi, en land án samþættingarstefnu sáir fordómum, eykur stéttaskiptingu og stuðlar að óstöðugu hagkerfi. Ég legg áherslu á „samþættingu“ í stað „aðlögunar“. Það er vegna þess að við viljum auðvitað að fólk sem kemur hingað taki virkan þátt í samfélagi okkar án þess að yfirgefa sína eigin menningu. Sjálf erum við til dæmis stolt af að sjá Íslendinga í Gimli í Kanada halda í sína menningu, og það er engin spurning um að þetta fólk leggur mikið til kanadískrar menningar.

Samþætting ætti að vera þverpólitískt mál. Ég hef fulla trú á því að bæði vinstri menn og hægri menn vilji að við gerum okkar besta til að taka vel á móti þeim sem hingað koma. Í þau átta ár sem ég hef verið á Íslandi hef ég tekið eftir að mörgu er ábótavant í innflytjendamálum hér á landi. Í þessu frumvarpi eru tillögur sem eiga að leysa þau vandamál sem ég hef sjálfur haft reynslu af eða sem mér hefur verið sagt frá.

Í fyrsta lagi er það staðreynd að meira en helmingur ungs fólks af erlendum uppruna fer ekki í gegnum framhaldsskóla. Þetta er sorgleg staðreynd sem getur aukið stéttaskiptingu og komið í veg fyrir samþættingu innflytjenda. Hluti af þessu vandamáli er greinilega að sem stendur krefjast lögin þess að innflytjendur sem verða 18 ára uppfylli skilyrði dvalarleyfis með því að sýna sjálfir fram á að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt. Í mörgum tilvikum hefur þetta í för með sér að þeir neyðast til að vinna fyrir sér í stað þess að vera áfram í skóla. En því getum við breytt með því að erlendum ungmennum verði gefinn kostur á dvalarleyfi þegar þau verða 18 ára gegn framvísun yfirlýsingar foreldris eða framfæranda um að þessu meginskilyrði dvalarleyfis sé fullnægt. Þannig getum við hjálpað til að sjá til þess að allir nemendur hafi jafnt tækifæri til að læra það sem þau langar til, skapa sitt eigið líf og taka þátt í íslensku þjóðfélagi.

Við erum auðvitað öll sammála um að enginn eigi að þurfa að þola heimilisofbeldi og enginn á skilið að vera refsað fyrir að skilja við maka sem beitir slíku ofbeldi. Það er þó því miður það sem gerist hjá sumum konum af erlendum uppruna sem hafa sætt slíku ofbeldi en hafa ekki þorað að slíta sambúð sinni af ótta við að missa rétt til dvalar í landinu. Ég tel löngu tímabært að úr þessu verði bætt með þeirri lagasetningu sem hér er lögð til, enda er það í fullu samræmi við hugmyndir frá félagasamtökum eins og Stígamótum og Kvennaathvarfinu.

Það er líka rétt að leiðrétta það óréttlæti sem felst í 24 ára reglunni svokölluðu. Hún felur í sér að erlendur maki getur ekki fengið dvalarleyfi ef makinn er 24 ára eða yngri. Nú þegar er kveðið á um í lögum að ef rökstuddur grunur er um að stofnað sé til málamyndahjúskapar til að afla dvalarleyfis veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Reglan er því óþörf gagnvart þeim sem rökstyðja má að muni fara fram hjá lögunum og óréttlát gagnvart öðrum.

Sem stendur er útlendingur með atvinnuleyfi bundinn af því að vinna aðeins á einum stað eða sækja aftur um atvinnuleyfi ef hann vill vinna annars staðar. Svona umsóknarferli er ósveigjanlegt og erfitt fyrir bæði umsækjendur og atvinnurekendur. Eigum við ekki frekar að veita erlendum starfsmönnum frelsi til að vinna þar sem þeirra er þörf og þar sem þeir vilja sjálfir starfa? Það er líka í samræmi við það sem stendur í stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda, með leyfi forseta:

„Tryggt verði að útlendingar á vinnumarkaði njóti sambærilegra réttinda og íslenskt launafólk og að allar ráðningar erlends verkafólks séu í samræmi við gildandi kjarasamninga. Komið verði í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði.“

Frelsi til að vinna þar sem maður vill, þar sem þess er þörf, til að byrja þegar maður vill byrja og hætta þegar maður vill hætta — það er hluti af grunnréttindum starfsfólks. Því miður hafa komið upp nokkur dæmi um að erlent starfsfólk fái borgað minna en íslenskir verkamenn, fái ekki mannsæmandi húsnæði og viti ekki einu sinni að stéttarfélög eru til hér á landi. ASÍ er búið að taka saman frábæran bækling fyrir innflytjendur sem útskýrir réttindi þeirra og þýða yfir á rúmlega 20 tungumál. Þessar upplýsingar þurfa að komast í hendur hverrar einustu manneskju sem flytur til landsins og hægt er að afhenda einstaklingum hann um leið og þeir fá atvinnuleyfi. Þegar verkamenn þekkja réttindi sín geta allir unnið betur saman.

Atvinnuleyfi afhent einstaklingum hjálpar líka til við að veita atvinnurekendum nauðsynlegt aðhald. Þeir sem fara illa með starfsfólk sitt eiga þá á hættu að missa það en hinir sem virða réttindi þess eiga auðveldara með að fá til sín gott starfsfólk. Þá tryggir þetta að enginn getur misst starf sitt vegna atvinnurekenda sem ætla að reyna að blekkja erlent starfsfólk á kostnað íslenska starfsfólksins. Þar fyrir utan mundi þetta fyrirkomulag gera atvinnumarkaðinn sveigjanlegri og þannig bæta efnahag þjóðarinnar.