135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er mikill pólitískur dansari og enginn er honum fremri í pólitískri snilli á því sviði. Hv. þingmaður flutti hér alveg prýðilega ræðu. Ég var sammála mörgu, ekki öllu, sem hv. þingmaður sagði. Í lok ræðu sinnar sagði hann: Þá hef ég farið yfir þetta mál og þá liggur það fyrir hvaða afstöðu minn flokkur hefur í þessum málum.

Ég vil leyfa mér að efast um að þetta sé af einlægni mælt, herra forseti. Ég segi alveg eins og er að mér var oft og tíðum órótt yfir málflutningi flokks hv. þingmanns í aðdraganda kosninga. Mér fannst hann að hluta til einkennast í málflutningi einstakra manna af útlendingaandúð. Ég segi bara: Guð láti gott á vita ef rétt er hjá hv. þingmanni að þau viðhorf sem hann flutti hér séu viðhorf Frjálslynda flokksins. Þá hefur líka orðið gagnger umsnúningur á stefnu þess flokks og þá segi ég aftur: Guð láti gott á vita því að batnandi fólki er langbest að lifa. Ég vona að hv. þingmaður Jón Magnússon, sé hjartanlega sammála öllu því sem hv. þingmaður sagði, sérstaklega undir lok ræðunnar.

Ég er þeirrar skoðunar að mjög miklu máli skipti, hugsanlegu mestu varðandi innflytjendur hingað til lands sem ætla að festa rætur, að taka vel utan um börnin þeirra. Rannsóknir sýna að þau eiga svolítið erfiðara, jafnvel töluvert erfiðara með að festa rætur í skólakerfinu. Það er hættulegt, bæði fyrir þau og samfélagið. Okkur ber langmest skylda til þess að tryggja framtíð þeirra.

Ég kom nú aðallega upp til þess að spyrja hv. þingmann einnar spurningar. Hann sagði að talsverð brögð væru að því að sú staðreynd að hér eru margir farandverkamenn af erlendu bergi leiddi til þess að Íslendingar ættu erfitt með að fá þau laun sem þeir telja sanngjörn.

Við óttuðumst það í upphafi þegar þessi mikla bylgja kom hingað í upphafi þensluskeiðsins. Ég leyfi mér þó að efast um að það hafi orðið að staðreynd. Hefur hv. þingmaður dæmi um (Forseti hringir.) að það sé útbreitt? Ég held ekki. En ég spyr eins og hann og trúi því þegar ég legg höndina í sárið.