135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

útlendingar og réttarstaða þeirra.

247. mál
[14:36]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma upp til að leiðrétta hlut okkar í Frjálslynda flokknum þessi útlendingamál. Í kosningabaráttunni í vor vorum við ásakaðir um neikvæðni gagnvart þeim en það vildi svo skemmtilega til að strax eftir kosningar tók ríkisstjórnin upp það sem við höfðum verið að leggja til, þ.e. að fresta hugsanlegri komu fólks hingað frá Rúmeníu og Búlgaríu, og nýtti sér þann frest sem við lögðum til að yrði nýttur á frjálsu flæði og það sem við höfðum lagt mikla áherslu á, að íslenska skólakerfið eða íslenskt menntakerfi setti peninga í það að kenna útlendingum íslensku. Þetta hvort tveggja var tekið upp eftir tillögum okkar og var af því góða en við lágum undir því ámæli að við værum á móti útlendingum og var beinlínis sagt um okkur að við værum útlendingahatarar. Þess vegna finnst manni hart hvernig núverandi stjórnarflokkar brugðust við og voru með ómerkilegan áróður gegn Frjálslynda flokknum í kosningabaráttunni. Það er því skemmtilegur vinkill á þessu að þeir tóku upp það sem við lögðum til í kosningabaráttunni strax eftir kosningar. Þetta er ekkert nýtt í pólitíkinni. Við höfum tekið eftir því að Samfylkingin og hæstv. iðnaðarráðherra taka U-beygju í hverju málinu á fætur öðru og vita ekki í hvora löppina þeir eiga að stíga í mörgum málum.