135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:10]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt en spurningin er engu að síður mjög mikilvæg og ég þakka fyrir hana.

Í fljótu bragði get ég nefnt álag. Við vitum að heimilisábyrgðin hvílir enn að miklu leyti á konum og ég held að mikið álag sé ein skýring. Það skiptir líka máli hvernig fjölmiðlar fara með konur, það hefur heilmikið að segja. Ég gæti einnig nefnt fleiri þætti.

Ég vil nefna annað, sem ég nefndi reyndar líka í ræðu minni, en það er framgangur í stjórnmálum. Hann getur haft heilmikið að segja. Ég nefni hér hugsanlegar þrjár ástæður, allt mjög óáþreifanlegar ástæður en engu að síður atriði sem við þurfum að skoða gaumgæfilega. Mér finnst það ekki síður áhugaverður punktur að skoða hver staða þeirra kvenna, sem þó koma inn í stjórnmálin, er og hver framgangur þeirra er í stjórnmálunum.