135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:13]
Hlusta

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langaði að byrja á að þakka hv. flutningsmönnum fyrir þingsályktunartillöguna. Ég tel hana afar góða og ég tel þær umræður sem hér hafa farið fram hafa verið einstaklega gefandi og fræðandi en því miður ekki skemmtilegar. Það er, eins og margir hafa komið að, ekki skemmtilegt að þurfa að taka þátt í þessari umræðu á hverju einasta ári. Ég get ímyndað mér að þær ykkar — ég segi þær, jú þarna er karlmaður, — sem hafa staðið í þessu lengur og eruð eldri að árum séuð orðnar enn þreyttari en ég á að þurfa að taka þetta mál upp aftur og aftur.

Komið hefur verið inn á mjög fróðleg atriði og nefni ég sérstaklega prófkjör og fjölmiðla sem við höfum rætt um. Mikið hefur verið rætt um hvort prófkjörið henti kvenmönnum síður og mér finnst þurfa að dýpka þá umræðu. Þar held ég að tillaga til þingsályktunar, um að Jafnréttisstofa taki allt verkefnið að sér, sé einstaklega góð. Við þurfum ekki bara að kanna hvort konur komi verr út úr prófkjörum heldur þurfum við að sjá af hverju og hvað við ætlum þá að gera í því? Það getur varla verið lausnin að halda áfram með prófkjör þegar fyrir liggur að konur koma verr út úr þeim en karlmenn. Varla er það sanngjarnt.

Fjölmiðlafólk kvartar og kveinar þegar það er gagnrýnt fyrir að taka færri konur í viðtöl og segir þá gjarnan að konur gefi ekki kost á sér. Þá þarf fjölmiðlafólk að velta því fyrir sér hverju það sæti og hvað við getum gert til að styrkja konur þannig að þær þori og vilji koma fram í fjölmiðlum. Það eru ekki færri konur sem hafa merkilega hluti að segja og geta komið fram í umræðuþáttum í sjónvarpi en karlmenn. Konur eru helmingur þjóðarinnar og það er mikið réttlætismál að fleiri konur gefi kost á sér til starfa í stjórnmálum. Og ekki er nóg að gefa kost á sér, við þurfum líka að gefa þeim konum sem sækjast eftir því sæti ofarlega á lista þannig að þær nái í áhrifastöður í þjóðfélaginu. Eins og hv. flutningsmaður, Siv Friðleifsdóttir, sagði vantar töluvert upp á að við getum talað um að hlutfall kvenna í stjórnmálum sé eðlilegt, hvort sem verið er að tala um sveitarstjórnarstigið eða Alþingi. Það er, eins og við vitum öll, ekki af því að konur eigi síður erindi inn í stjórnmálin, hafi síður áhuga eða séu síður hæfar. Enginn reynir að halda slíku fram í dag eða að minnsta kosti mjög fáir. Orsakanna er augljóslega að leita í því að við konur höfum fengið þau skilaboð í aldanna rás að við eigum minna erindi upp á dekk og að við eigum að halda okkur á öðrum vígstöðvum.

Þó að staðan sé ekki þannig nú hefur þetta bergmál úr sögunni engu að síður áhrif á okkur. Það að hlutfallið hafi hækkað frá því fyrir 20 árum, 40 árum eða 60 árum þýðir ekki að nú ætlum við bara að sitja og bíða og sjá til hvernig staðan verður eftir nokkra áratugi, hvort dóttir mín fái sömu tækifæri og karlmenn eða hvort barnabarnið hennar fái það. Við þurfum að grípa til aðgerða, eins og sagt hefur verið hér, og við höfum svo sem gert það áður. En við þurfum alltaf að vera á vaktinni og stíga skref í hvert einasta skipti sem við sjáum að hallar á. Hvetja þarf konur og aðstoða þær til að komast áfram í heimi stjórnmálanna sem er karllægur. Með því móti erum við ekki einungis að tala um rétt kvenna til að sinna þessum störfum heldur einnig um rétt samfélagsins til að njóta starfa kvenna og rétt þjóðarinnar til að hagsmunir allra verði hafðir að leiðarljósi við ákvörðunartöku.

Ég kem því hingað upp til að segja að ég styð þingsályktunartillöguna og einnig flokkur minn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð.