135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:17]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að fagna því að þeim hefur fjölgað af hinu kyninu í salnum frá upphafi umræðunnar og vil kannski leyfa mér að segja að það segir e.t.v. meira en mörg orð að konur eru í meiri hluta í salnum og konur hafa frekar tekið til máls en karlmenn. Kannski höfum við einfaldlega meiri áhuga á þessu máli vegna þess að það snertir okkur með öðrum hætti en þá.

Hér var rætt um sjónarmið. Ég held að það skipti meginmáli hvort heldur á Alþingi, í sveitarstjórnum eða hvar sem er, í skólum, leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum, að sjónarmið karla og kvenna komi fram. Þess vegna skiptir máli að á þessum starfsvettvangi séu konur jafnt sem og karlar, hæfar konur og hæfir karlar. Það er meginmarkmiðið með því að fjölga konum hvar sem er að sjónarmið kvenna skipta ekkert síður máli en sjónarmið karla og hvernig við lítum á málin. Stundum lítum við eins á þau en það skiptir máli að í samfélagi þar sem tvö kyn búa ráði sjónarmið beggja

Ég er hins vegar afar hlynnt prófkjörum, einfaldlega vegna þess að þau veita fólki frelsi til að taka þátt og bjóða sig fram í stjórnmálum. Ég var persónulega svo lánsöm að mér gekk ágætlega í prófkjörum. Ég hef farið í þau tvö. Ég hlaut fyrsta sæti í fyrra prófkjörinu, sóttist eftir þriðja sæti í því seinna og fékk sjötta og sit nú á þingi ásamt þremur konum úr Suðvesturkjördæmi fyrir minn flokk og þremur körlum. Meira jafnrétti er vart hægt að hugsa sér ef litið er til þess. Ég er hins vegar algjörlega andsnúin kynjakvóta á lista, það er bara andstætt minni hugsun að svo sé skipað á lista. Aftur á móti hef ég áhyggjur af því hvers vegna fleiri konur gefa ekki kost á sér í pólitík, í sveitarstjórnir, til Alþingis. Ég hef áhyggjur af því. Ég held að við þurfum líka að fara að skoða hvort það geti frekar verið starfsvettvangurinn og hvernig hann er uppbyggður, heldur en hitt að konur nái ekki endilega árangri. Ég er ansi hugsi yfir þessu og ég held að í mörgum tilvikum heilli vinnustaðurinn síður konur en karla og eftir nokkurra vikna setu á þingi er ég ekkert hissa á því. Hér ganga hlutirnir mjög hægt fyrir sig og það er bara ekki eðli kvenna að hlutir gangi hægt fyrir sig. Við viljum að hlutirnir gangi hratt og örugglega, að byrjað sé á verkefni og því lokið en ekki að það taki bæði margar vikur og stundum mörg ár að hrinda í framkvæmd verkefnum og málum. Það er kannski númer 1, 2 og 3. Þess vegna skora ég á hæstv. forseta Alþingis að beita sér fyrir breyttum aðferðum í þinginu sem geri vinnustaðinn meira aðlaðandi fyrir konur til að starfa. Þetta er ekki sagt til að kasta rýrð á karlpeninginn almennt, þetta er, held ég, ákveðinn kynjamunur og eðlismunur á körlum og konum og hvernig kynin ganga til verka.

Ég verð hins vegar að segja, hæstv. forseti, að orðfærið „að bæta hlut kvenna“ í greinargerð tillögunnar pirrar mig. Ég vil auka hlut kvenna og gera eitthvað til þess að hvetja konur. Mér finnst því miður vera eins konar fórnarlambsstimpill á þessari greinargerð og ég á svo erfitt með að sætta mig við það fyrir mína hönd og kynsystra minna.

Mig langar í þessu sambandi að benda á að í gær var skipað í nefnd, sjö manna nefnd. Í henni eiga sæti tvær konur og fimm karlar. Ef við lítum til oddvita stjórnmálaflokka á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru sjö sveitarfélög, þá eru oddvitar stjórnmálaflokkanna 17 karlar og fimm konur. Í dag er engin kona bæjarstjóri eða borgarstjóri á höfuðborgarsvæðinu. Um tíma voru þær fjórar. Þetta er vissulega afturför í mínum huga vegna þess að þegar við konurnar sem gegndum þessum störfum gengum úr þeim voru það karlar sem gengu í störfin. Því segi ég að við þurfum líka að velta því fyrir okkur, konur, hvað við viljum að gert verði í okkar stjórnmálaflokki til þess að við komum fleiri að stjórnmálum. Viljum við að flokkurinn okkar breyti einhverju eða viljum við, eins og ég sagði áðan, að vinnustaðirnir verði meira heillandi fyrir okkur til þess að við fáum áhuga á að fara þangað inn og láta gott af okkur leiða?

Við þurfum líka að líta aðeins í eigin barm. Komið var inn á það hér að enn þá hvíldi meiri ábyrgð á heimilishaldinu á okkur konum og vissulega tek ég undir það. En ég bið okkur líka að líta til þess ef við ráðum okkur hjálparhellu, hvers kyns er hún? Hún er örugglega ekki karlkyns. Ef við ráðum okkur hjálparhellu við heimilishaldið er hún örugglega ekki karlkyns. Við leitum ekki til frænda eða einhverra slíkra til að fá þá til að vinna verkin. Við erum líka þátttakendur í þessu ójafnræði og ójafnrétti sem ríkir.

Hæstv. forseti. Að lokum svona til gamans. Ég held að ég hafi lesið það í einhverju ágætu dagblaði að fasteignaverð á húsnæði tengist konum. Þar sem konum fækkar þar lækkar fasteignaverðið. Ég held að þetta gæti kannski verið það eina sem gæti kveikt í ýmsum til að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum og á þingi ef það hefði einhver áhrif á blessaða budduna samhliða. Í mínum huga eru konur jafnhæfar og karlar en það verður hins vegar að leita leiða til þess að hvetja konur til að taka aukinn þátt í stjórnmálum og að því leyti styð ég þessa þingsályktunartillögu.