135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði að hv. þm. Guðni Ágústsson flutti hér mjög góða ræðu þótt ég heyrði að vísu bara síðasta hlutann af henni. En ég réð af öllum sólarmerkjum að þetta hefði verið hin merkasta ræða.

Ég vil jafnvel gerast ívið róttækari en hv. þm. Guðni Ágústsson og segja að ég held að það komist ekkert vit í veröldina fyrr en konur fá þar stóraukin völd og áhrif. Við vorum á ákaflega merkum fundi í morgun í utanríkismálanefnd þar sem greint var frá frumkvæði kvenna í Líberíu sem hafa eiginlega með samtakamætti sínum unnið þrekvirki í því stríðshrjáða landi með því að mynda öflugt tengslanet kvenna og koma vitinu fyrir karlana sem voru búnir að berast þar á banaspjótum um árabil. Það er langt síðan ég fór að mynda mér þá skoðun á m.a. alþjóðamálum, friðarmálum og þróunarsamvinnuverkefnum að lykillinn að farsæld í þeim efnum lægi alveg sérstaklega í gegnum það að virkja konur og auka áhrif þeirra og þátttöku á öllum sviðum.

Ég er eiginlega orðinn alveg endanlega úrkula vonar um að það komist vit í heiminn meðan karlar hafa þar jafnmikil völd og áhrif og raun ber vitni. Þeir eru búnir að reyna í mörg þúsund ár að búa saman og það hefur yfirleitt gengið heldur illa þegar lögð eru til grundvallar hin karllægu gildi, hernaðarhyggja og aðrir slíkir hlutir. Ég held að við eigum að taka höndum saman um það, auðvitað á þessu sviði sem er mikilvægt, vettvangi stjórnmálanna, en á öllum öðrum sviðum líka, að lagfæra þessi valdahlutföll sem eru skökk og ráðast að rótum vandans sem eru hinar undirliggjandi orsakir sem hafa leitt til þess að hlutur kvenna er rýrari en hann á að vera á fjölmörgum, og flestum, áhrifasviðum í samfélaginu. Ég er svo uppveðraður af þessu að ég er að hugsa um að biðja um að forseti setji mig svo á mælendaskrá síðar í þessari umræðu.