135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[15:36]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna sjá menn hve mikil áhrif gagnleg lýðræðisumræða hefur. Hér hafði ég haldið réttlætisræðu mína og talað fyrir hlut kvenna. Þá hljóp kvensemin í hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og hann yfirbauð mig auðvitað í umræðunni. En ég heyri að við erum mjög samstiga í skoðunum í þessum efnum og í rauninni er það rétt sem hann sagði — ég hef farið yfir atvinnulífið og sveitarstjórnina að það þarf líka að hugsa þetta á víðari vísu.

Við skulum t.d. hugsa okkur að aldrei hefur kona verið kjörin forseti Bandaríkjanna. Hvað skyldi gerast ef frú Clinton yrði nú kjörin forseti Bandaríkjanna og Bush færi? Ég sé ekki eftir honum. (Gripið fram í.) Ég held að það væru góð skipti sem gætu haft áhrif í veröldinni til friðsamlegri hluta. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hugsa þetta í víðu samhengi og raunar víðara samhengi en flutningsmenn hafa lagt upp með. Þjóðfélagið allt þarf að breyta um hugarfar og allir vinnustaðir þurfa að velta því fyrir sér að þeir eru á markvissari braut og meiri framtíðarvegi ef þar eru bæði karlar og konur að störfum.