135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjáraukalög fyrir árið 2007 eru að koma til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. Vanalega eru í fjáraukalagafrumvarpi við 2. umr. gerðar tillögur um breytingar, bæði í frumvarpinu sjálfu og hér aftur við 2. umr., sem að hluta hefðu átt að tilheyra fjárlögum næsta árs. Hvað viðvíkur halla eða fjárvöntun í ýmis verkefni hjá ýmsum stofnunum var það fyrirsjáanlegt við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs bentum þá á það sem nú er dregið í land með og allt gott um það.

Þetta sýnir okkur hve mjög fjárlagavinnunni er ábótavant og framkvæmd fjárlaga líka eins og við höfum ítrekað gagnrýnt, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Margar af þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn leggur til eru góð mál og sumar breytingartillagna meiri hlutans við 2. umr. hefur okkur tekist að hafa áhrif á í gegnum nefndina og munum styðja þó að frumvarpið í heild sinni sé á ábyrgð ríkisstjórnarflokkana. Þess vegna munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við það í heild sinni.

Við höfum flutt tvær breytingartillögur við frumvarpið. Önnur lýtur að því að ljúka þessu Grímseyjarferjuklúðri sem sumir hafa kallað Hafnarfjarðarklúðrið og koma með fjármagn í eitt skipti fyrir öll til að ljúka þessu sómasamlega. Það vildum við gera og sú tillaga er hér inni. Hin tillagan frá okkur er um að fella brott heimild ríkisins til að selja Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og við viljum líka afdráttarlaust að hún verði samþykkt. Engu að síður munum við kalla þessar tvær tillögur til baka til 3. umr. eins og fram mun koma við atkvæðagreiðsluna, herra forseti.