135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:34]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á fréttum sem hafa verið að birtast nú í morgun í fjölmiðlum þar sem bent er á að lífskjör á Íslandi eru þau bestu í heimi ef marka má niðurstöður greiningar á lífskjörum meðal 177 þjóða heims. Við ræðum oft í þessum þingsal um það sem ekki er gott og það sem miður fer. Það er því þess virði að staldra við og huga að þeirri staðreynd að Ísland er með hæstu einkunn eða hæsta skor ásamt Noregi samkvæmt lífskjaravísitölu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin hefur birt vísitölu af þessu tagi undanfarin 18 ár.

Mat á lífskjörum byggist á nokkrum þáttum. Þeir þættir eru m.a. lífslíkur, menntunarstig og landsframleiðsla á mann. Þessir þættir eru taldir hafa áhrif á lífsgæði. Á listanum í ár er Ísland í fyrsta sæti með afar hátt skor, 0,968, og þar á eftir fylgja þær þjóðir sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Mig langar að nota tækifærið og fagna þessum niðurstöðum. Þetta vekur athygli á Íslandi en um leið, og það skiptir meira máli, minnir þetta okkur á hve lánsöm við erum að fá að lifa, starfa, ala upp börn okkar og eldast í þessu landi.

Fram undan bíða mál sem munu enn frekar þróa íslenskt samfélag. Ég hlakka t.d. til að taka þátt í umræðum um að efla menntakerfið og heilbrigðiskerfið hér á landi. Við erum í efsta sæti en ég veit að við getum gert betur. Mig langar að biðja hæstv. forsætisráðherra að segja okkur álit sitt á umræddri niðurstöðu.