135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessari niðurstöðu. Hún var birt í morgun á vegum Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Niðurstaðan bendir til þess að við höfum enn bætt okkur á listanum sem birtur hefur verið árlega nú um 17 ára skeið. Vissulega eru það ánægjuleg tíðindi. Þó að við höfum í mörg ár verið í hópi efstu ríkja rekur mig ekki minni til þess að við höfum áður vermt fyrsta sætið.

Það sem er merkilegt við þessa niðurstöðu er að ekki er eingöngu mældur kaupmáttur eða fjárhagslegur hagur viðkomandi landa heldur einnig önnur atriði sem áhrif hafa á velmegun viðkomandi þjóðar, og þá batnar staða okkar enn miðað við einfalda mælingu á ráðstöfunartekjum á mann. Þetta er ánægjulegt en jafnframt áskorun til okkar um að halda áfram að standa okkur vel og gera enn betur eins og hv. þingmaður sagði.

Í morgun bárust líka þau tíðindi að hið alþjóðlega lánshæfisfyrirtæki Moody's hefði ákveðið að breyta ekki lánshæfismati á ríkissjóði Íslands, hvorki matinu sjálfu né horfunum hvað það varðar. Ástæða er til að vekja athygli á því að Moody's hefur haft okkur í hæsta flokki nú um nokkurra ára skeið og sér ekki ástæðu til að gera breytingar þar á. Því vil ég líka fagna sérstaklega.

Þetta hvort tveggja ætti að vera þeim áminning innan lands sem utan sem reyna að tala niður allan árangur sem náðst hefur. Margt hefur gengið vel. Mörg verkefni þarf að leysa, mörg vandamál eru óleyst, þannig er það alltaf. En sem betur fer fáum við vísbendingar um að við séum þrátt fyrir allt á réttri leið.