135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:41]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Fullt tilefni er til að gleðjast yfir góðum árangri í að byggja upp þjóðfélag. Fyrir liggur að sú atvinnustefna sem rekin hefur verið á undanförnum árum hefur borið góðan árangur. Vissulega hefðum við ekki náð þangað sem við stöndum núna ef menn hefðu ekki lagt áherslu á að nýta auðlindir lands og sjávar og ekki síst vatnsaflið. Vatnsaflið er auðlind sem færir okkur velmegun eins og aðrar auðlindir. (Gripið fram í.) Um það má deila hvernig auðurinn dreifist, fyrst á það er minnst.

Í öðru lagi er mikilvægt að taka eftir því að það sem vegur þyngst í þeim mælikvörðum sem lagðir eru í skýrslunni er annars vegar heilbrigðiskerfið og hins vegar menntakerfið. Við getum verið stolt af því að heilbrigðiskerfið er jafngott og raun ber vitni, eitt það allra besta í heimi. Þegar kostnaðurinn við það er skoðaður kemur í ljós að það er ekki dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur kostnaður við það farið lækkandi á síðustu árum. Við þurfum ekki að tala um heilbrigðiskerfið á þann hátt sem oft hefur heyrst í þessum þingsal, að verið sé að eyða miklum peningum og ekki fáist nógu mikið fyrir þá.

Menntakerfið er mjög gott. Það hefur stuðlað að því að koma þjóðinni til mennta og nýta þá menntun til að skapa verðmæti í atvinnulífinu. Vissulega er gott að hafa þetta í huga. Það er líka gott fyrir okkur að fá mat erlendra aðila á því hvernig við höfum staðið okkur. En ég tek undir það, virðulegur forseti, að það skiptir ekki síður máli hvernig við skiptum verðmætunum á milli þjóðarinnar. Ef til vill má skoða það betur.