135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur fyrir að vekja athygli á þessari þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að Ísland er í efsta sæti yfir lífskjör í heiminum. Hún er mikið fagnaðarefni og segir okkur að við Íslendingar erum forréttindafólk. Við erum fólk sem nýtur þeirra forréttinda að fæðast og lifa í landi þar sem lífskjör eru með þessum hætti. Raunar er það ekkert nýtt, allt frá því að þessar mælingar hófust, fyrir rúmum 20 árum, hefur Ísland verið í einu af efstu sætunum. Það stafar af því að hér er barnadauði lítill. Hér eru lífslíkur miklar. Hér er ólæsi nánast ekkert. Hér er menntun góð. Hér er atvinnuþátttaka og frelsi kvenna mikið. Allt þetta helst í hendur og gerir það að verkum að lífskjör okkar eru eins og þau eru.

Þetta leggur okkur líka miklar skyldur á herðar og mikla ábyrgð, ekki síst í loftslagsmálum því að eitt af því sem þessi skýrsla tekst á við og bendir á eru áhrif loftslagsbreytinga á kjör í heiminum og ekki síst á kjör þeirra sem fátækastir eru og þau ríki sem skemmst eru á veg komin á þróunarbrautinni. Þarna getum við lagt mikið af mörkum, m.a. með verkefnum í jarðhita, líka innan lands.

Það er ástæða til að vekja athygli á því að þrátt fyrir að mælingar séu svona, og það er mikið fagnaðarefni, er ekki öllu lokið. Við eigum heilmikið eftir í því að jafna lífskjör líka innan lands. Við verðum alltaf að hafa það hugfast og hreykja okkur ekki um of þótt þetta sé sannarlega mikilvægt, og mikið ánægjuefni.