135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:47]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að gleðjast yfir þessum niðurstöðum. Það er augljóst að okkur miðar ágætlega áfram. Ég tel þetta til marks um að okkur hafi tekist að tvinna ágætlega saman kosti lýðræðisins og hins frjálsa markaðar. Það er ástæða til að óska bæði ríkisstjórnum undanfarinna ára til hamingju og eins stjórnarandstöðunni fyrir þátt hennar. Í lýðræðinu skiptir máli að stjórnarandstaðan standi sinn vörð og því er full ástæða fyrir okkur öll sem störfum í þessum sal til að gleðjast yfir að okkur hafi tekist í það minnsta að ná þeim árangri að vera talin ein þeirra þjóða í heimi sem býr best.

Þó er rétt að hafa í huga ákveðin atriði. Það er ekki þar með sagt að við séum ríkasta þjóð í heimi eða sú best stæða. Þegar horft er til þess hver samansafnaður auður þjóða er, ef við horfum bara frá árinu 1950 eða svo, kemur í ljós að við Íslendingar eigum enn langt í land með að jafna stöðu okkar gagnvart þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við.

Það hefur gengið vel hérna síðustu 15–20 árin en þegar borið er saman við það hvernig hefur gengið í nágrannalöndunum, frá stríðslokum skulum við segja, eigum við enn töluvert eftir. Við erum ekki enn komin á sama stað og t.d. Norðurlandaþjóðirnar þegar litið er til fjárfestinga á mann erlendis eða uppsafnaðs auðs.

Það er ástæða til að gleðjast en þetta er líka áminning um að við eigum að nota þetta tækifæri sem við nú stöndum frammi fyrir til að efla stöðu okkar. Því er áhersla ríkisstjórnarinnar á menntamál og heilbrigðismál nauðsynleg til að tryggja samfélagsgerðina. Um leið skiptir miklu máli að við höldum áfram að lækka skatta í landinu til að hvetja einstaklingana til þess að taka áhættu, hvetja einstaklingana til þess að grípa þau tækifæri sem eru nú þegar vissulega til staðar fyrir okkur í hinum nýja og breytta heimi þar sem hver og einn á möguleika til þess að láta til sín taka, bæði innan lands og erlendis.

Þó vil ég nefna eitt sem hlýtur að vekja (Forseti hringir.) töluverða athygli þingmanna, þær tvær þjóðir sem hæst tróna á þessum lista eru báðar utan ESB og það hlýtur að vera (Forseti hringir.) áhugaefni fyrir þá sem hafa áhuga á þeim málaflokki.