135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:50]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn erum mjög ánægð með að við mælumst hátt í öllum könnunum. Það er alveg ljóst að eftir 12 ára ríkisstjórnarsetu getum við borið höfuðið hátt. Við höfum átt stóran þátt í því að koma okkur þangað sem við nú erum. Það hefur verið stöðug framför á síðustu árum í velferðarsamfélaginu. Við höfum staðið að því að skapa hér atvinnu og standa mjög dyggan vörð um heilbrigðisþjónustuna. Við búum að því í dag.

Mér fannst mjög sérstakt að hlusta áðan á hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hreykti sér á kostnað m.a. Framsóknarflokksins, að mér fannst, virðulegur forseti. Hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir síðustu kosningar? Hún sagði að velferðarkerfið hefði verulega látið á sjá í tíð núverandi ríkisstjórnar og var að tala um ríkisstjórnina sem sat þá. Hún talaði um að það hefði allt verið í afturför og ekkert til bóta. Þetta var auðvitað alrangt hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Núna er sagt að við séum forréttindafólk. Sama persónan segir núna að við séum forréttindafólk en lýsti því rétt fyrir kosningar, og það er bara hálft ár síðan, að hér væri allt á afturfótunum. Það var búið að rífa niður heilbrigðiskerfið. Þá umræðu man ég, virðulegur forseti, afar vel þar sem ég hafði þau mál með höndum. Það er mjög sérstakt að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar tala eins og allt hafi snúist við á síðustu vikum og mánuðum. Það er auðvitað ekki þannig, virðulegur forseti.

Gunnar Svavarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, lagði mikla áherslu á það í kosningunum að endurreisa þyrfti velferðarkerfið. Heyr á endemi! Við erum búin að byggja upp hér sameiginlega mjög öflugt velferðarkerfi, (Forseti hringir.) en Samfylkingin sló ryki í augu kjósenda fyrir kosningar og náði því miður árangri í því.